Íraksævintýri Bush og Blairs hleypti öllu í bál og brand í Mið-Austurlöndum. Það var svosem ekki á það bætandi, Palestínudeilan var búin að vera eins og graftarkýli á heiminum áratugum saman og er enn.
Hugmynd þeirra félaganna, og Dicks Cheney og Donalds Rumsfeld var að hægt yrði að umbreyta Mið-Austurlöndum með því að steypa Saddam Hussein og koma á lýðræði sem síðan myndi smitast út til annarra ríkja á svæðinu. Og tryggja aðgang að olíulindum í leiðinni.
Það var ekki bara framkvæmdin sem var klúður heldur var hugmyndin líka vitlaus. Bandaríkjamenn byrjuðu á því að leysa upp írakska herinn og írakska embættismannakerfið sem hafði starfað undir Saddam – þá var tryggt að algjör glundroði myndi ríkja í landinu.
Það sem meira var – undir Saddam bjuggu íbúar Íraks við ákveðinn stöðugleika. Kvenfrelsi var þar til dæmis meira en í mörgum ríkjum íslams.
Við getum farið yfir í nágrannaríkið Sýrland. Þar geisar blóðugt og skelfilegt borgarastríð. Bandaríkin byrjuðu á því að styðja uppreisnaröfl gegn harðstjóranum Assad. En aftur ber þetta að sama brunni – Assad tryggði stöðugleika og frelsi upp að vissu marki, eins og Saddam er hann fremur maður veraldlegra gilda en trúarinnar.
Þriðja dæmið er Egyptaland. Þar braust út bylting, meðal annars í gegnum samskiptamiðla, sem felldi harðstjórann Hosni Mubarak. Eftir stutt tímabil þegar Íslamska bræðralagið var völd, tók herinn yfir. Hann stjórnar nú aftur með gamla laginu, í anda Mubaraks. Maður heyrir ekki mikið kvartað yfir því á Vesturlöndum.
Við getum reyndar farið ennþá lengra aftur, til Afganistan. Þar var í eina tíð stjórn sem vildi mennta þegna sína og leyfði konum að ganga í skóla. Hún átti vissulega í vök að verjast – og ekki var þetta lýðræði. Sovétmenn komu þessari stjórn til hjálpar þegar hún var við það að falla 1979. Þá gengu Bandaríkin á lagið og fóru að styðja uppreisnaröfl í Afganistan.
Við vitum hvernig það fór – Al Qaeda er skilgetið afkvæmi þessa stríðs. Það var eins og útungunarbúðir fyrir ofsatrú og ofstæki.
Það yrði kaldhæðni örlaganna ef Bandaríkin og Vesturlönd sæju sig tilneydd til að gera bandalag við hinn veraldlega harðstjóra Assad í Sýrlandi til að kveða niður ógnina sem stafar frá íslamistum. Í nafni þess að stöðugleiki sé betri en glundroði – þótt stefnan byggist ekki á sérstökum heilindum.
Konur í Afganistan áður en stríðið braust út þar. Þær nutu ákveðins frelsis sem þær misstu síðar.