Þegar Kalda stríðinu lauk vonuðu margir að biði okkar skynsöm heimsskipan. Kjarnorkuógn yrði á bak og burt. Þjóðir myndu frekar kjósa viðskipti í friði og spekt en átök og styrjaldir. Ýmislegt hefur svosem breyst í betri átt, gríðarlegur mannfjöldi hefur hafist upp úr fátækt síðan í lok Kalda stríðsins. Velmegun er almennari. Sums staðar hefur frelsi og lýðræði orðið ofan á, eins og í Suður-Ameríku og víðast í Austur-Evrópu. Þar voru áður bakgarðar stórvelda sem fóru sínu fram að vild.
En trú reyndist vera breytan sem menn sáu ekki fyrir. Einn þýðingarmesti atburður 20. aldarinnar var valdtaka klerkanna í Íran. Áður höfðu Mið-Austurlönd og ríki íslams stefnt í veraldlega átt. Þetta var reyndar undir stjórn harðstjóra eins og Nassers, Sadats og Mubaraks í Egyptalandi, Palhavis í Íran, Assads í Sýrlandi, Saddams Hussein í Írak og Daoud Khan í Afganistan. Þjóðirnar fengu veraldlega menntun, konur ákveðið frelsi.
En við fall þessara harðstjóra liggur leiðin ekki áfram eftir hinni veraldlegu braut, heldur eru það trúmenn sem ná völdum – og oft þeir öfgafyllstu.
Á sama tíma gerðist það í Bandaríkunum að trú fór að hafa meiri áhrif á pólitíkina í gegnum stjórnmálamenn eins og George W. Bush og Sarah Palin. Bush missti meira að segja út úr sér að hann ætlaði að fara í krossferð í Mið-Austurlöndum. Þetta er þveröfugt við það sem hefur gerst í Evrópu þar sem trúin er stöðugt að missa vægi og kemur eiginlega hvergi nálægt landstjórninni lengur.
En viti menn, í Rússlandi er Pútín forseti sífellt að færa sig nær hinni afturhaldssömu rétttrúnaðarkirkju. En þar eru mannréttindi og lýðfrelsi á undanhaldi.
Nú er talað um að trú sé jaðarsett vegna þess að hugsanlega verða bænir lagðar niður á Rás 1. Menn verða nokkuð stóryrtir af litlu tilefni. Trú er ekki jaðarsett í Bandaríkjum nútímans, í Rússlandi og í Mið-Austurlöndum. Þar er hún nálægt því að vera í miðdepli. Það hefur hins vegar ekki verið til sérstakrar farsældar, hvorki fyrir umrædd ríki né heimsbyggðina.
Þýskaland er það stóra ríki í heiminum þar sem stjórnmálin eru hvað skynsamlegust. Þar ríkir almenn velferð, mannréttindi og tjáningarfrelsi. Hvergi er siðferðisleg umræða jafn samofin pólitíkinni – siðferðisleg álitamál eru rædd meðfram stjórnmálunum.
En Þýskaland er eitt trúlausasta land í heimi.