Ég þekki gamalt fólk sem fer í leikhús og missir ekki af Sinfóníutónleikum.
Ég þekki gamalt fólk sem hlustar á Bylgjuna.
Ég þekki gamalt fólk sem er sífellt að ferðast til útlanda.
Ég þekki gamalt fólk sem fer á skíði og í gönguferðir.
Ég þekki gamalt fólk sem fer oft á kaffihús.
Ég þekki gamalt fólk sem er ennþá að vinna á fullu.
Ég þekki gamalt fólk sem hlustar á útvarp Sögu og fær hugmyndir sínar þaðan.
Ég þekki gamalt fólk sem missir ekki af Kiljunni.
Ég þekki gamalt fólk sem lifir í bókum.
Ég þekki gamalt fólk sem gerir eiginlega ekkert annað en að horfa á sjónvarpið.
Ég þekki líka gamalt fólk sem er mjög tölvuvætt.
Sá sem nú er sjötugur var tíu ára þegar Elvis Presley söng That´s All Right – hann var nítján ára þegar Bítlarnir slógu í gegn.
Hann var eins árs þegar fyrsta kjarnorkusprengjan var notuð á menn – módernismi í listum var orðið gamalt fyrirbæri þegar hann fæddist.
Gamalt fólk er alls konar.
Þegar maður verður gamall breytast ekki áhugamál manns. Maður fer ekki allt í einu að hafa gaman af bænum eða harmonikkutónist hafi maður ekki haft það áður.
Þorgerður E. Sigurðardóttir orðar þetta ágætlega á Facebook:
Af hverju er í umræðu oft reiknað með því að allt gamalt fólk hafi sömu áhugamál og lífssýn? Þá á ég ekki við hagsmunamál sem þessi hópur á auðvitað einhver sameiginleg. Mér finnst þetta niðurlægjandi.
Elvis Presley væri sjötíu og níu ára hefði hann lifað, en þeir sem nú eru sjötugir hefðu fyrst getað heyrt hann syngja That´s All Right, Mama þegar þeir voru níu ára.