Hún er fremur nöturleg sýnin sem birtist inn í hugarheim prestanna Hjámars Jónssonar og Ólafs Jóhanns Borgþórssonar.
Báðir hafa þeir undanfarna daga talað um „andstæðinga kirkjunnar“.
Hverjir eru andstæðingar kirkjunnar – á kirkja yfirleitt andstæðinga? Hvað þá þjóðkirkja sem er haldið upp af skattfé, sem skírir, fermir og giftir stóran hluta landsmanna og hjálpar til að koma langflestum í gröfina?
Eru það andstæðingar kirkjunnar sem vilja skilja á milli ríkis og kirkju? Eða þeir sem ekki eru í þjóðkirkjunni – eru þeir andstæðingarnir?
Nei – það þarf alls ekki að vera. Margir myndu einmitt halda að samkrull ríkisvalds og trúar sé ekki heppilegt, hvorki fyrir ríkið né trúna. Það er er jafnvel líklegt að sumir sem eru þeirrar skoðunar séu velviljaðir kirkjunni.
Prestarnir leggja þetta upp sem einhvers konar stríð. Annar þeirra, Hjálmar, gekk reyndar svo langt í stólræðu í Dómkirkjunni að tala þannig að það er eins og hann leggi að jöfnu að hætt sé að fara með morgunbænir í útvarpi á Íslandi og ofsóknir gegn kristnum mönnum í Miðausturlöndum.