Á tíma kalda stríðsins voru Sovétríkin með fréttamenn á Íslandi. Eða kannski er ekki rétt að nota þetta heiti, því þetta voru starfsmenn frétta/áróðursskrifstofa sem hétu Tass og Novosti. Eftir að kalda stríðinu lauk var þessu snimendis hætt, enda vandséð að það hafi haft nokkurn tilgang nema sem liður í einhverjum heimsveldisórum.
Þeir sem hafa starfað lengi í blaðamennsku á Íslandi kunna að segja sögur af þessum mönnum. Ég lenti til dæmis í að einn af þeim bauð mér í heimsókn þegar ég var ungur maður. Hann reyndi mikið að hella mig fullann, þetta var í hádeginu á virkum degi, var alltaf að hella vodka í glas og vildi skála við mig.
Svo gáfu þessir náungar manni alls konar bleðla – bæklinga með litmyndum af Brésnev, hamingjusömum verksmiðjufólki og glöðum samyrkjubændum.
Þetta hafði semsagt afar lítið að með fréttir að gera.
Þjóðviljinn vann reyndar talsvert upp úr Tass fréttaskeytum eins og þessa frétt um friðarstefnu Sovétstjórnarinnar og ástæðulausan ótta við kjarnorkuvopn sem hún hefði yfir að ráða.
Nú er sagt frá því að kínverska fréttastofan Xinhua ætli að opna skrifstofu hér á landi. Það er ekki minni maður en Ólafur Ragnar Grímsson forseti sem tilkynnir þetta – eins og þetta sé eitthvað hjartans mál hans.
Maður sér auðvitað hvers konar starfsemi er þarna á ferðinni af því að Ólafur ræddi við forseta fréttastofunnar sem jafnframt situr í miðstjórn Kommúnistaflokks Kína. Þetta er ekki fréttamennska samkvæmt hefðbundnum gildum fagsins.
Kínverjar eru reyndar betri í því vinna hug og hjarta ráðamanna með eilífum boðsferðum þar sem er keyrt í limósínum og gist á lúxushótelum en í því að vinna almenningsálitið á sitt band. Þeir eru ákafir og frekir í sínum utanríkissamskiptum, en það vantar mikið upp á sjarmann. Meira að segja sovésku Tass og Novosti mennirnir sem voru hér í eina tíð og höfðu heilt hús í Túngötu hefðu getað kennt þeim lexíu í þessum fræðum.
En kannski á vera Xinhua fréttamanna hér á landi að bæta úr því?
Þegar ég var ungur nemandi í MR var starfandi þar í skólanum svokallað „Dreifbýlisfélag“. Meðal þess sem var til gamans gert á fundum félagsins var að sýna kvikmyndir sem félagsmenn fengu frá Novosti fréttastofunni í Garðastrætinu. Myndirnar fjölluðu um ýmis skemmtileg mál, eins og hænsnarækt í Úsbeksistan og glatt og hamingjusamt líf á samyrkjubúum.