fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
Eyjan

100 ár frá morðinu í Sarajevo

Egill Helgason
Föstudaginn 27. júní 2014 22:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru kannski ekki margir sem þekkja nafnið Gavrilo Princip – en nú eru liðin nákvæmlega hundrað ár frá því að hann framdi voðaverk sem hafði heimssögulegar afleiðingar.

Morðið á Franz Ferdinand, erkihertoga og ríkisarfa Austurríkis-Ungverjalands, í Sarajevo – það var 28. júní 1914.

Fyrri heimstyrjöldin á auðvitað ýmsar skýringar og ekki allar einfaldar, eins og heimsvaldastefnu og vopnakapphlaup,  en þarna var neistinn sem kveikti bálið.

Tilræðismennirnir þennan dag voru serbneskir þjóðernissinnar og þeim fórst þetta heldur óhönduglega. Að sumu leyti er atburðarásin farsakennd. En þeir voru staðráðnir í að drepa erkihertogann sem var laukur Habsborgaraveldisins. Á leið hertogans voru sex tilræðismenn. Einum þeirra brást kjarkur, sá næsti, 19 ára stúdent, henti sprengju að bílnum þar sem óku Franz Ferdinand og kona hans, sú sprengja sprakk undir öðrum bíl og særði vegfarendur og menn úr fylgdarliði hertogans.

Enn var reynt en þá var mannfjöldinn slíkur að fjórir tilræðismenn sem voru saman hættu við, og biðu annars færis. Tiræðismaðurinn sem henti spengjunni reyndi að fyrirfara sér með því að gleypa blásýrutöflu og henda sér út í á. En hann varð bara lasinn af töflunni og áin var grunn, þannig að hann var handtekinn.

Franz Ferdinand ákvað að fara á spítala til að sjá hina særðu. Þá hafði verið tekið það ráð að breyta leið hans, en bílstjórinn gleymdi því og ók Franz Jósefs götu eins og áður hafði verið fyrirhugað. Þar kom Gavrilo Princip auga á bílinn. Bílstjórinn var að reyna að snúa við. Princip greip tækifærið, hljóp til, þreif upp byssu sína og skaut tveimur skotum inn í bifreiðina. Bæði hertoginn og Sophie kona hans létust stuttu síðar.

632063-e21fccfc-fdb5-11e3-9463-539ac6ca705b

Við morðið hófst atburðarás sem enginn réð við. Austuríki-Ungverjaland krafðist skaðabóta af Serbum og fengu stuðning frá Þýskalandi. En Rússar stóðu með Serbum og svo var Frakkland í hernaðarbandagi með Rússlandi. Þjóðverjar réðust á Frakka í gegnum Belgíu og þá voru Bretar skuldbundnir til að skerast í leikinn. Tyrkir höfðu harma að hefna gegn Rússum og gengu í bandalag með Þjóðverjum.

Þetta var óstjórnlegt rugl en í lokin lágu 10 milljón menn í valnum og enn fleiri voru særðir eða örkumla. Og seinni heimstyrjöldin var í raun beint framhald af hinni fyrri og öfgunum sem mögnuðust upp í stríðslok.

Nú lifum við þann tíma samvinna Evrópuríkja er svo náin að slíkir atburðir geta varla gerst – að minnsta kosti ekki í næstu framtíð. En það getur auðvitað breyst ef við gáum ekki að okkur.

Gavrilo Princip var aðeins 19 ára þegar hann skráði nafn sitt á spjöld sögunnar með þessum hryllilega hætti. Hans er minnst sem eins mesta ólánsmanns mannkynssögunnar. Princip reyndi líka að fyrirfara sér, en mistókst Princip var of ungur til að hægt væri að taka hann af lífi samkvæmt lögum Habsborgaraveldisins. Hann dó úr berklum í fangelsinu í Teresín í  Bæheimi í apríl 1918, hálfu ári fyrir stríðslokin. Þá var hann 23 ára. Fangelsið notuðu nasistar síðar sem útrýmingarbúðir fyrir gyðinga.

Proces_w_Sarajewie_s

Réttarhöldin yfir Gavrilo Princip og vitorðsmönnum hans. Princip er fyrir miðri mynd, með skegghýung og hallar undir flatt.

images-11

Bifreiðin sem Franz Ferdinand og kona hans Sophie óku í er til sýnis á safni í Vínarborg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Elías Már til Kína
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“