Það hefur gengið á ýmsu í sögu sautjánda júní. Ég er viss um að flestir sem eru komnir á miðjan aldur telji að hátíðarbragurinn hafi verið meiri í gamla daga, þó ekki nema vegna þess að þá klæddi fólk sig upp á sautjándanum, fór í sparifötin og enn mátti víða sjá konur í íslenskum búningi. Nú er flísið og útivistarfatnaðurinn alls ráðandi. Fólk fer í bæinn klætt eins og það sé að fara í tjaldútilegu.
Einu sinni þótti miðbærinn ekki nógu góður fyrir sautjándann. Þetta var um miðjan sjöunda áratuginn – borgarstjórnin þá fyrirleit miðbæinn og vildi helst rífa hann allan. Þá vöru hátíðarhöldin flutt inn í Laugardal, á íþróttaleikvanginn sem var tiltölulega nýr. Borgarbúum var safnað saman þangað til að hlusta á ávarp fjallkonunnar, en síðan tók við kúluvarp. Svona var þetta minnir mig í þrjú ár, þá voru hátíðarhöldin aftur flutt niður í bæ.
Þetta var á árunum þegar stóð til að rífa allan gamla bæinn að örfáum húsum undanskildum. Hann var ekki talinn mikils virði.
Svo var það upp úr 1970 að fyllerí unglinga á sautjándanum þótti keyra um þverbak. Þetta var tími mikillar forsjárhyggju – það var á þessum tíma að áfengisversluninni var lokað um nokkurt skeið til að tryggja að víndrykkja skyggði ekki á hátíðarhöld vegna 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Nú var brugðið á það ráð að færa kvöldskemmtanirnar út í skólana. Ég man að það var engin sérstök stemming yfir því að standa í Melaskólaportinu á þjóðhátíðardaginn. En svo gáfust menn upp á þessu og aftur var farið að dansa í miðbænum að kvöldi 17. júní. Svo var það lagt af um hríð, en nú sýnist mér að eigi að vera tónlist í miðbænum til 10 í kvöld. En Gleðigangan og Menningarnótt eru miklu stærri dagar í Reykjavík en 17. júní.
Annars er að ýmsu að hyggja varðandi þennan dag hvers vegur hefur farið verulega minnkandi. Það eru voða litlar hefðir í kringum hann – í mat eru það varla nema pylsur og hvað umgjörðina varðar er það eiginlega ekki annað en fánar og blöðrur. Sautjándi júní hefur hin síðari ár orðið svo dauflegur að fólk nennir ekki einu sinni að detta í það – þannig er af sem áður var.
Sagt er frá því í fréttum að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi sent Íslendingum heillaóskaskeyti þar sem er minnt á að Bandaríkin hafi verið fyrst til að viðurkenna íslenska lýðveldið. Þetta minnir okkur á að lýðveldið var stofnað undir verndarvæng Bandaríkjanna. Í sjálfu sér var ekkert að því, Bandaríkin voru þá helsta lýðræðisríki heims, á tíma hildarleiks seinni heimstyrjaldarinnar. Ísland var síðan á verndarsvæði Bandaríkjanna í marga áratugi – og samskiptin við Bandaríkin voru helsta pólitíska deilumálið.
Nú er utanríkisstefnan hins vegar afar óljós. Við erum hálf inni í Evrópusamstarfinu, án þess þó að hafa nokkuð um ákvarðanir að segja, áhrifamikil öfl í stjórnmálum vilja meina að framtíð okkar liggi í samstarfi við Rússland og Kína, en Bandaríkin eru áhugalítil um Ísland – nema þá helst til að reyna að segja okkur að veiða ekki hvali.
Í þessu sambandi má benda á prýðilega grein eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing sem nefnist Sjálfstæðir Íslendingar, lýðveldið á tímamótum.
Um tíma voru hátíðarhöld á sautjándanum á íþróttaleikvangnum í Laugardal. Borgarstjórn þess tíma skammaðist sín fyrir miðbæinn, enda átti að rífa hann. Borgarbúum var stefnt í Laugadal á þjóðhátíðardeginum til að horfa á kúluvarp og fimleika. Það verður að segjast eins og er að nokkur Austur-Evrópubragur var á hátíðinni þessi ár. Þó var Sjálfstæðisflokkurinn við völd.