Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður, kenndur við Brim, skrifar grein í Fréttablaðið sem síðar verður að sérstakri frétt á Vísi.
Í greininni mótmælir Guðmundur fyrirhuguðum íbúðabyggingum við miðbik hafnarsvæðisins og segir að vernda þurfi svæðið fyrir atvinnulíf.
Nú er það svo í nýja aðalskipulaginu að gert er ráð fyrir að fiskihöfnin í Reykjavík haldi sér. Það er meira að segja horfið frá áformum um byggð í Örfirisey, enda óttuðust menn að hún kynni að þrengja að fiskihöfninni.
Höfnin er semsagt alls ekki á leiðinni burt.
En það er gert ráð fyrir íbúðahúsum við Mýrargötu. Þar er reyndar að rísa stórhýsi sem vekur mikinn ugg – það er algjörlega úr öllum hlutföllum miðað við byggðina á svæðinu og sorglegt að ekki skyldi takast að stöðva byggingu þess.
Að öðru leyti er þó enn gert ráð fyrir því að þarna verði áfram höfn fyrir hvalaskoðunarbáta og smábáta – með meðfylgjandi mannlífi, veitingahúsum og búðum.
Hluti hafnarsvæðisins hefur verið að þróast mjög skemmtilega síðustu árin, það byrjaði með því að Kjartan Halldórsson opnaði Sægreifann sinn – svo má eiginlega segja að ferðamenn hafi numið land þarna á svæði þar sem Íslendingar voru ekki mikið að skoða.
Spurningin er auðvitað með Slippinn – hann er þarna ennþá, en verður hægt að hafa hann áfram? Það væri auðvitað skemmtilegast.
En það er ekki mikið mannlíf í kringum stóra skemmu sem þarna stendur, forljóta og ótútlega. Ekki verður heldur séð að mikil starfsemi sé þar innandyra. Hún er í eigu Guðmundar í Brimi. Í kringum hana eru stór bílastæði þar sem enginn fær komast inn með bifreiðar sínar. Það yrði til mikilla bóta ef hægt væri að rífa skemmuna – nema svo ólíklega vilji til mögulegt sé að finna henni nýtt hlutverk.
Á þessum reit væri hægt að gera ýmislegt skemmtilegt – ef ekki væri fyrir þetta hús.
En það er reyndar merkilegt til þess að hugsa að 101 Reykjavík er bæði stærsta fiskihöfn landsins og langstærsti ferðamannastaðurinn. Þarna mætast semsagt helstu atvinnugreinar landsins.