fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
Eyjan

Maí 78 undir heimskautasól – þegar vinstri flokkarnir unnu loks Reykjavík

Egill Helgason
Fimmtudaginn 12. júní 2014 18:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessa mynd birtir Guðmundur Magnússon sagnfræðingur á Facebook. Forsíða Morgunblaðsins 30. maí 1978. Og eins og Guðmundur segir.

Fyrir marga boðaði styrjaldarletur Morgunblaðsins eftir borgarstjórnarkosningarnar vorið 1978 að senn drypi smjör af hverju strái í höfuðborginni. Í Aðalstræti 6 merkti þetta frekar að kreppa og hungursneyð væru framundan. Svona leggja menn nú mismunandi merkingu í orðin. Merkilegt annars að nú dettur engum í hug að tala um ‘vinstri stjórn’ í borginni. Enda allir borgarfulltrúarnir velmeinandi sunnudagskratar.

10458751_10152521029729289_8671800084264646362_n

Sjálfur skrifaði ég um þessi tíðindi í grein sem birtist í Fréttatímanum rétt fyrir kosningar:

Hér er áhugavert að staldra við og skoða forsöguna. Reykjavík var djásnið í kórónu Sjálfstæðisflokksins. Borgarstjórarnir komu úr röðum hans og urðu síðar forsætisráðherrar: Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Gunnar Thoroddsen, Davíð Oddsson. Sögulegar persónur. Flokkurinn réð lögum og lofum í borginni, útdeildi lóðum og leyfum og öðrum gæðum. Þá fluttu vinstri menn í Kópavog og byggðu sér bæ, því þeir fengu ekki lóðir eða fyrirgreiðslu í borginni. Þar voru kommar og kratar og Framsóknarmenn. Kópavogur var hluti af Seljtarnarnesi en varð sjálfstætt bæjarfélag þegar horfur voru á að vinstri menn yrðu í meirihluta á Nesinu. Nú hefur þetta snúst við, Kópavogur er blár – en Reykjavík rauð, eða eigum við að segja fölbleik?

Vinstri mönnum reyndist ómögulegt að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borginni. Flokkurinn hafði líka rosalega kosningamaskínu, fylgdist grannt með því hverjir komu á kjörstað og var með bílaflota til að aka kjósendum þangað. Vinstrið hafði ekki roð við þessu. Það var ekki fyrr en 68 kynslóðin var komin með kosningarétt að meirihluti Sjálfstæðisflokksins fékk í fyrsta sinn. Það þóttu feikileg tíðindi og var skrifað um þetta í heimspressuna. “Maí 78 undir heimskautasól”, mátti lesa í Le Monde.

Það sem munaði mest um var stórsigur Alþýðubandalagsins sem fékk næstum 30 prósent – Sjálfstæðisflokkurinn var enn með 47,4 prósent, þannig að þetta var naumt. Sigur Alþýðubandalagsins var að miklu leyti Guðrúnu Helgadóttur að þakka, hún var beitt, fyndin og skemmtileg, smellpassaði inn í tíðarandann með fas sitt og sínar vinsælu bækur – þarna var kominn foringi sem gat skákað Sjálfstæðismönnum. Annars höfðu borgarpólitíkusar vinstrisins yfirleitt verið frekar litlaust fólk.

Vinstri meirihlutinn 1978 til 1982 var í tómum vandræðum. Mikið ósamlyndi var innan hópsins og hann réð illa við valdakerfið sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði komið sér upp í borginni. Eftir hann rann upp tími hins sterka leiðtoga, Davíðs Oddssonar, sem þarna gat sér orð fyrir að vera háðskur og snjall, foringi sem umbar ekki neitt röfl. Hann sigraði í þrennum kosningum í borginni, fékk rúmlega 52 prósenta fylgi í fyrri tvö skiptin, en 1990 varð algjör sprenging í fylginu, það var 60 prósent. Vinstra fólkið nennti ekki einu sinni að mæta á kjörstað.

Stuttu síðar hvarf Davíð af vettvangi og varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Markús Örn Antonsson var gerður að borgarstjóra, en þegar leit út fyrir að hann myndi ekki fiska í kosningum var Árni Sigfússon settur í embættið – hann ríkti í 88 daga.

Þá var kominn fram R-listinn, sameiginlegt framboð Alþýðubandalags, Kvennalista, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forsvari. Ingibjörg Sólrún og R-listinn sigruðu í þrennum næstu kosningum. Þetta voru mjög harðir kosningaslagir – allsendis ólíkir því sem gerist nú. Þarna tókust á tvær fylkingar sem spöruðu ekkert til, þær höfðu nægt fé til að auglýsa, fótgöngulið til að fara út á meðal borgarbúa – umfjöllun var komin á fullt í fjölmiðlum löngu fyrir kosningarnar, jafnvel ári fyrr. Kjörsóknin var líka mjög góð, 88 prósent árið 1994.

Til samanburðar má nefna að kjörsóknin 2010 var 73 prósent og margir telja að hún fari undir 70 prósent um helgina.

 

gudrun_helgadottir_klippt

Guðrún Helgadóttir átti stóran þátt í að fella Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík 1978. En kosningasigurinn súrnaði fljótt, því vinstri meirihutinn lagðist fljótt í rifrildi. Einkum voru það kratar og kommar sem deildu eins og það hét í þá daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Standi ekki steinn yfir steini í „eftiráskýringu“ Hildar – „Þannig að eitthvað passar ekki alveg þarna“

Standi ekki steinn yfir steini í „eftiráskýringu“ Hildar – „Þannig að eitthvað passar ekki alveg þarna“
Eyjan
Í gær

Segir ljóst að aðilar úti í bæ séu að stýra stjórnarandstöðunni – „Það gengur ekki að sérhagsmunaöflin stýri landinu“

Segir ljóst að aðilar úti í bæ séu að stýra stjórnarandstöðunni – „Það gengur ekki að sérhagsmunaöflin stýri landinu“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ný vefsíða skýrir Málþóf í hnotskurn – Og tekur saman kostnað Alþingis meðan málþófið stendur

Ný vefsíða skýrir Málþóf í hnotskurn – Og tekur saman kostnað Alþingis meðan málþófið stendur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum