Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær segir:
Margir Evrópumenn hafa á örfáum árum gerst mjög umburðarlyndir gagnvart fjandsamlegri umfjöllun um kristna trú, og virðist engu skipta hversu langt er gengið.
Þeir sömu fara mun varlegar gagnvart öðrum trúarbrögðum. Það skerðir ekki vilja til ýkts umburðarlyndis af því tagi, þótt slíkum trúarbrögðum sé fylgt fram af miklum ofsa eða útfærsla þeirra stangist algjörlega á við viðtekin sjónarmið heima fyrir, svo sem í afstöðu til hlutverks og réttinda kvenna, sem jafnvel verða að sæta andlegum og líkamlegum hryðjuverkum í öfgafyllstu tilfellunum með vísun til trúarlegra heimilda.
Og svo er haldið áfram í nokkuð svipuðum dúr:
Það er ekkert rangt við það, að fólk vilji fá upplýst, hvort engu skipti fyrir það, ef annarra þjóða fólk sæki bæði hratt og í miklum mæli inn í velferðarkerfi, sem það hefur ekkert lagt til, og muni sennilega frá fyrsta degi þurfa mjög á að halda.
Það felast engir kynþáttarfordómar í slíkum spurningum. Og það hefnir sín að kæfa í fæðingu varfærnislega umræðu af því tagi. Í rauninni er illskiljanlegt að margir skuli frekar óttast ábyrga og öfgalausa umræðu um rétttrúnaðarefnin en afleiðingarnar af því að bannfæra hana.
Hún mun brjótast út, fyrr eða síðar, eins og dæmin sanna og þá er hætt við að öfgar og ábyrgðarleysi muni einmitt einkenna hana. Og engu verði lengur um þokað.
Umræðan mun brjótast út, segir í Reykjavíkurbréfinu. Og þá hlýtur maður að spyrja, ætlar Morgunblaðið kannski að fara að feta sig út á þessa braut?
Sigurjón M. Egilsson skrifar í vefrit sitt Miðjuna – og kaldhæðnin leynir sér ekki:
Eftir að hafa lesið þetta, og alvöruna að baki orðunum og ekki síst hver segir þetta og skrifar, held ég að þjóðin verði að bregðast við og það strax. Nú verður umræðan að breytast hratt og örugglega. Ef ekki mun, einsog segir í Reykjavíkurbréfi, umræðan brjótast út og þá munu öfgar og ábyrgðarleysi muni einmitt einkenna hana. Og engu verði lengur um þokað.