Þær eru merkilegar tölurnar sem birtust í síðustu viku um flutninga fólks til Íslands. Þar kom í ljós að síðan um mitt ár 2012 hafa 2890 fleiri útlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá landinu.
En á sama tíma hafa 810 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu til þess.
Hlutur erlendra ríkisborgara í íbúafjöldanum er semsagt aftur að aukast, eins og hún gerði mjög ört á árunum fyrir hrun. Áríð 2008 var þetta hlutfall komið í 7,4 prósent og var þá hærri en meðaltalið í Evrópu. Þetta minnkaði eftir hrun, var komið í 6,6 prósent í ársbyrjun 2012, en vex nú aftur.
Að miklu leyti er þetta náttúrlega til að svara eftirspurn á vinnumarkaði. Nú eru uppgrip í sumum atvinnugreinum, sérstaklega í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Það er mjög erfitt að fá iðnaðarmenn, rafvirkja, pípulagningamenn og smiði. Margir íslenskir iðnaðarmenn hafa flutt til Noregs – en iðnaðarmenn sunnan og austan úr Evrópu flytja hingað í staðinn.
Þeir sem búa um herbergi á íslenskum hótelum eru að miklu leyti útlendingar.
Það er nokkuð atvinnuleysi á Íslandi eða um 6 prósent, en sumir telja að það sé vanmetið. Varlegt er þó að álykta að útlendingar taki störf frá Íslendingum. Hér er um að ræða störf sem þeir vilja ekki vinna eða eru vanbúnir til að vinna.
Útlendingarnir sem hér fá vinnu geta komið vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við teljum það sjálfsagt mál.
En þegar útlendingar koma sem eru annars staðar frá er þeim gert mjög erfitt fyrir að fá landvist, óþarflega erfitt – að maður tali ekki um þegar hælisleitendur eiga í hlut. Það má kannski endurskoða.