Þetta er geysilega mikill samdráttur í verslun – og þar af leiðandi neyslu – eins og sjá má í þessari frétt DV.
Maður furðar sig enn á því hvað eru margar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Sumar matvörubúðir virðast alveg óþarfar. Enginn þar að kaupa neitt.
Það er eiginlega merkilegt að verslunum skuli ekki hafa fækkað meira – maður spyr sig til dæmis hvort Smáralindinni sé ekki ofaukið í þessu árferði.
Í Miðbænum eru flestar búðir að breytast í túristasjoppur – lundabúðir – og nú finnst manni eins og hljóti að vera offramboð af þeim líka. Svo eru enn að koma veitingastaðir í pláss þar sem áður voru verslanir. Spurning hverjir eiga að halda uppi þessari starfsemi í vetur þegar túristarnir fara?
Samdráttur í byggingarvöruverslun var 45 prósent í fyrra. Kemur ekki á óvart. Það eru líklega mörg ár áður en byggingaiðnaður nær sér á strik á Íslandi.
Annars eru líka of margir bankar. Það er talað um að sé ráð að sameina Íslandsbanka og Arion. Þá mætti sjálfsagt fækka útibúum líka.
Svona er þetta á Íslandi, of mikið af öllu – allt var gírað upp í topp í kreppunni og svo skiljum við smátt og smátt að við ættum að geta komist af með minna.
En þá missir fólk auðvitað vinnuna líka. Kannski er betra að hafa fólk í vinnu en á atvinnuleysisbótum, þótt það sé lítið að gera. Það er partur af mannlegri reisn að hafa atvinnu – og það er mikilvægt.