Það eru flottir erlendir höfundar sem eru að koma hingað á Bókmenntahátíðina sem hefst á miðvikudaginn.
Fyrsta er að telja Nóbelsverðlaunahafann Hertu Müller sem er ættuð frá Sjöborgalandi í Rúmeníu, en skrifar á þýsku.
Ég er að lesa magnaða bók eftir hana sem er nýútkomin, heitir á íslensku Andarsláttur. Hún er ekki auðlesinn höfundur, en nær að skapa einstakt andrúmsloft.
Denise Epstein er dóttir höfundarins Irene Némirovsky. Móðirin var rithöfundur sem var myrt í Auschwitz í stríðinu. Fyrir nokkrum árum kom út eftir hans skáldsagan Frönsk svíta – óhemju breið frásögn af Frakklandi á tímanum þegar Þjóðverjar voru að leggja það undir sig 1940. Bókin er nú komin út á Íslandi, en Epstein verður gestur á hátíðinni.
Þriðja konan sem rétt er að nefna er egypski höfundurinn Nawal el Saardawi – hún er fræg baráttukona fyrir kvenfrelsi og mannréttindum í heimalandi sínu, hefur setið í fangelsi og var virk í mótmælunum á Tahrir-torgi fyrr á þessu ári.
Um allar þessar konur – og Bókmenntahátíðina – verður fjallað í Kiljunni sem verður á dagskrá sjónvarpsins á miðvikudagskvöldið.