Innflytjendamálin eru ekki lengur númer eitt í Danmörku.
Það eru að koma kosningar og Sósíaldemókrötum er spáð sigri.
Aðalmálin eru efnahagur þjóðarinnar og velferð.
Helsti stjórnarflokkurinn, Venstre, hefur notið mikillar velgengni. Hann hefur farið með forsætisráðuneytið í tíu ár – og þau ár hafa verið Danmörku nokkuð góð.
En Venstre gerði bandalag við skrattann í líki Þjóðarflokks Piu Kjærsgaard – lét teyma sig á slóðir útlendingahaturs. Nú er komið í ljós að innflytjendavandinn svokallaður er í raun nokkurs konar lúxusvandamál. Nokkuð sem hægt er að ræða fram og til baka þegar vel árar. En þegar harðnar á dalnum taka aðrir hlutir við – það má kalla það blákaldan raunveruleikann.
Líkt og í Þýskalandi þar sem jakkafatarasistinn Thilo Sarrazin varð umfjöllunarefni allra fjölmiðla um langt skeið og meira að segja virtir fjölmiðlar eins og Der Spiegel voru farnir að gera því skóna að innflytjendur væru stórkostleg ógn við þýskt samfélag.
Nú er það skuldakreppan sem er aðalmálið – hún er nefnilega raunveruleg ógn.