Viðtal Financial Times við Ólaf Ragnar Grímsson forseta er athyglisvert. Þar fagnar hann kaupum Kínverjans Huangs Nubo á Grímsstöðum á fjöllum og telur að Íslendingar muni hagnast á þeim.
En það sem vekur mesta eftirtekt er hvernig hann talar um alþjóðapólitík – stöðu Íslands í heiminum.
Sumir myndu reyndar telja að Ólafur sé enn talsmaður svokallaðrar útflutningsleiðar sem hann boðaði þegar hann var forseti Alþýðubandalagsins. Hún gekk út á aukin viðskipti við Austur-Asíu.
Ólafur segir að Kína og Indland hafi hjálpað Íslandi meðan Evrópa var fjandsamleg og Bandaríkin létu sér standa á sama.
En blaðið virðist ekki vera alveg á sama máli og forsetinn, heldur bendir á að Ísland hafi fengið aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum – og þar hafi Evrópuríki verið fremst í flokki. Það segir líka að Ísland sé í viðræðum um að ganga í Evrópusambandið.
Það vitnar líka í forsetann sem á að hafa sagt að Bandaríkin hafi haft „núll áhuga“ á Íslandi síðan herstöðinni nærri Reykjavík var lokað fyrir fimm árum.
Blaðið segir að Ólafur Ragnar hafi heimsótt Kína fimm sinnum á síðustu sex árum – og hefur eftir honum að hann hafi tekið á móti fleiri kínverskum sendinefndum á Íslandi en frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni samanlögðum.
Hann nefnir einnig að Kínverjar hafi gert gjaldmiðlaskiptasamning við Ísland eftir hrunið fyrir hans tilstilli – upphæðin sem um ræðir hafi verið 500 milljónir dollara.
Hann segir að Indverjar hafi líka sýnt stuðning, boðið honum í opinbera heimsókn meðan á Icesave deilunni stóð og einnig ráðgeri þeir að byggja fimm stjörnu hótel nálægt Þingvöllum.