Skotveiðimenn sem ég talaði við í gær töldu að helsta ástæðan fyrir því að rjúpu fækkar séu einfaldlega loftslagsbreytingar.
Það sé minni snjór á vetrum – en lengri tímabíl þegar er bleyta og slabb. Rjúpan þrífist ekki vel í slíku loftslagi.
Rjúpnastofnar hafa einnig verið á undanhaldi á Skotlandi – og þar er rætt um að loftslagsbreytingar kunni að vera ástæðan.
Við lærðum það í barnaskóla að rjúpnastofninn væri háður náttúrulegum sveiflum. Skotveiðar hafa verið mjög takmarkaðar síðustu árin, veiðidagarnir eru fáir og það hafa verið sett upp bannsvæði þar sem má ekki veiða. Skotveiðimennirnir tjáðu mér að á þeim svæðum hefði rjúpu ekki fjölgað merkjanlega.
Það eru að verða breytingar í náttúrunni hérna á þessu hlýskeiði. Lundinn hópast norður fyrir land, makríll gengur upp á fjörur. Við erum farin að sjá nýjar tegundir af skordýrum – og það vaxa epli á eplatrjám. Getur þá verið að fækkun rjúpu sé partur af þessum breytingum og rjúpnaveiði heyri kannski brátt sögunni til?