Framsetning Samtaka fjármálafyrirtækja vegna afskrifta lána er athyglisverð – eða kannski má segja að hún sé afhjúpandi.
Þar segir að lán einstaklinga hafi veri færð niður um 143,9 milljarða. Þetta eru lán í bönkum og fjármálafyrirtækjum, hjá íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.
En 120 milljarðar eru komnir til vegna gengistryggðra lána – sem dómstólar úrskurðuðu að væru ólögleg.
Þá eru ekki eftir nema um 25 milljarðar sem eru raunveruleg niðurfærsla lána.
Það er að megninu vegna hinnar svonefndu 110 prósenta leiðar, en eins og bent hefur verið getur ábatinn af henni horfið fljótt þegar verðbólga er jafn mikil og nú.
Það má svo bera þetta saman við ýmsar aðrar afskriftir í kerfinu – auðmenn eru að fá miklu stærri fjárhæðir en þetta felldar niður og það sem meira er, þess er gætt að þeir þurfi ekki að sjá á bak eignum sínum.