Beint lýðræði er mikið lausnarorð þessa dagana. En lýðræðinu er líka hægt að skipa þannig að það verði lamandi.
Í Bandaríkjunum er kerfið þannig að forsetar eru kosnir á fjögurra ára fresti. Kosningar til þings eru ótt og títt og það er gerist æ ofan í æ að önnur eða báðar þingdeildir eru andsnúnar forsetanum.
Niðurstaðan er þrátefli eins og einkennir stjórnmálin í Bandaríkjunum þessa dagana – og kjósendur eru búnir að missa trúna á pólitíkinni.
Það hafa þeir líka gert á Íslandi. Hér búum við í kerfi þar sem framkvæmdavaldið hefur verið talið alltof frekt til fjörsins. Það hefur verið rætt um nauðsyn þess að efla þingið, en í frumvarpi Stjórnlagaráðs vekja frekar athygli hugmyndir um beint lýðræði.
Þarna er gert ráð fyrir að tíu prósent atkvæðisbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðgreiðslu og að tvö prósent geti tekið sig saman og lagt fram þingmál. Í ofanálag heldur forsetinn málskotsrétti sínum. Reyndar er fyrirvari um mál sem lögð eru í…
„… í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“
Það er spurning hvort Icesave hefði verið tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt þessu.
Nú veit maður ekki hvernig frumvarpi Stjórnlagaráðs reiðir af – hvort stjórnmálamenn ætla sér yfirleitt að nota það. En þarna eru tillögur sem eiga ábyggilega eftir að vekja deilur.