Það er einkennileg hugmynd að halda að misvægi milli dreifbýlis og þéttbýlis eigi að jafna út með því að atkvæðavægi sé ójafnt. Meira að segja Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gerði athugasemd við misvægi atkvæða á Íslandi eftir síðustu kosningar.
Á síðustu hundrað árum hafa Íslendingar upplifað stöðugan straum fólks til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er svosem ekkert einstakt, en hér hefur það valdið því að sumir landshlutar eru nánast að tæmast. Ýmislegt kemur þar til sögu, breyttir atvinnuhættir, sókn í menntun og menningu, ungt fólk sem snýr ekki heim að lokinni skólagöngu. Það þarf miklu færra fólk til að vinna sveitastörfin en áður og sama er að segja um fiskvinnsluna.
Það er samt almennur vilji að halda landinu í byggð eftir föngum og ekki miklar líkur á að það breytist. En að gera það með því að sá sem flytur í Kópavog hafi miklu minni atkvæðisrétt í þingkosningum en sá sem býr á Sauðárkróki er ekki aðferðin.
Í greininni sem hér er vitnað í er nefnt að eignastaða fólks sé lélegri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Það er ein röksemdin fyrir misvægi atkvæða. En þeir sem töpuðu öllu sem þeir áttu í hruninu og kannski meiru til, búa nú við „neikvæða eignastöðu“ – er kannski hægt að bæta þeim þetta upp með auknu atkvæðavægi?