Aftur hriktir í Evrusvæðinu – og nú er það skuldavandi Ítalíu og Spánar sem veldur vandræðum.
Það er nýbúið að finna tímabundna lausn á skuldavandræðunum vestanhafs – sú lausn virðist vera algjört klastur.
Partur af þessu eru spákaupmenn sem eru eins og rándýr sem eru alltaf að leita að veikluðu fórnardýri sem er að heltast úr hjörðinni.
Um daginn var það Grikkland, nú eru það Spánn og Ítalía. Leiðtogar Evrópu voru búnir að koma sér saman um aðgerðir gegn skuldavandanum – en það er nokkur tími þangað til þær komast í gagnið. Þetta reyna rándýr markaðarins að nýta sér.
Það skal ekki gera lítið úr hinum undirliggjandi vanda, en spákaupmennirnir og matsfyrirtækin magna hann upp með græðgi sinni og ábyrgðarleysi. Þetta er fjármálakerfið sem hefur byggst upp síðustu áratugina – og það verður ekki lengur búið við óstöðugleikann sem hann veldur.
Hingað til hafa málin bjargast fyrir horn. En kannski endar þetta í hruni. Sumir eru að spá því að Evrusvæðið bíði algjört skipbrot í ágúst – þegar venjulega eru sumarfrí og allt lokað sunnarlega í álfunni. Þá verða daprir dagar framundan – og hætt við að allur efnahagsbati á Íslandi fari fyrir lítið.