Alls staðar á Vesturlöndum er að koma upp krafan um að hinir auðugu borgi hærri skatta – eftir langt tímabil frjálshyggju sem gekk að miklu leyti út á að létta skattbyrði á ríku fólki.
Í Bandaríkjunum segist auðmaðurinn Warren Buffett vilja borga hærri skatta, hann segist greiða lægri skatta en ritarinn sinn.
Í Frakklandi býðst hópur milljarðamæringa, með Liliane Bettencourt í fararbroddi, til að borga hærri skatta.
Jakob Augstein skrifar í Der Spiegel og segir að kapítalisminn sjálfur sé að tortíma sér með auknum ójöfnuði. Það sé rangt að ætla að leysa þennan vanda með niðurskurði sem muni leiða til aukinnar gremju, samfélagi okkar verði ekki bjargað nema með því að hinir ríku leggi meira af mörkum, annars sé lýðræðið í hættu.