Konan mín heldur því fram að hún sé farin að sjá alls konar skrítin skordýr.
Ég reyni heldur að draga úr þessu. En það er í mínum verkahring að fjarlægja skordýr úr húsinu ef þau birtast.
Ég reyni yfirleitt að ná þeim lifandi. Mér er illa við að drepa þau.
Snemma í sumar varð uppi fót og fit þegar konan mín hélt því fram að hún hefði séð kakkalakka í þvottavélinni. Hún neitaði að koma nálægt henni.
Ég var úti á landi svo ekkert var þvegið í nokkra daga.
Þegar ég kom heim varð ljóst að þetta var kakkalakki úr gúmmíi sem hafði verið keyptur fyrir afmæli Kára.
Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við kakkalakka, nema hermt var að þeir héldu til á varnarsvæðinu í Keflavík – hefðu borist þangað með bandaríska hernum.
En vissulega er skordýrafánan að stækka. Ég henti mjög skrítnum maur út um gluggann hérna í gær. Og á Kambsveginum var drekafluga að þvælast.
Það eru raunar skemmtileg skordýr og gaman að fylgjast með þeim þar sem þær hnita í hringi, oftast yfir vatni.