Ýmsu taka menn upp á.
Og sumt er ágætt.
Eins og til að útnefna borgartré ársins.
Það er líklega mesta breytingin sem hefur orðið í Reykjavík að hér eru tré út um allt.
Þegar amma mín, sem var norsk, kom fyrst til Íslands 1928 gekk hún oft upp á Grettisgötu til að skoða tré sem var þar. Annars voru eiginlega engin tré í Reykjavík – eins og sjá má á myndum.
Tréð sem varð fyrir valinu er í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu, er af tegundinni Evrópulerki, áttatíu ára gamalt og tíu metra hátt. Það hefur semsagt verið gróðursett stuttu eftir að amma var að skima eftir trjám í bænum.
Annars kannast ég ágætlega við þetta tré, er alinn upp rétt hjá kirkjugarðinum og þekki þar hvern krók og kima.
Ég hef mörgum sinnum klifrað upp í það, það var reyndar ágæt íþrótt í eina tíð að klifra í tréð, sitja í greinum þess og spjalla. Það var líka reynandi að fara með stelpur í kirkjugarðinn og klifra upp í tréð til að ganga í augun á þeim.