Það eru ansi mikil tíðindi að 93 prósent aðspurðra í skoðanakönnun skuli styðja kröfur leikskólakennara.
Þetta er stétt sem nýtur mikils velvilja, allir vita að hún er illa launuð og að hún vinnur mikilvægt starf. Ég hef áður skrifað að starf í leikskólum hér sé yfirleitt fjarska gott.
Leikskólakennarar hafa líka eignast forystumann sem kemur afar vel fyrir. Haraldur Freyr Gíslason var flottur trommari í Botnleðju, hann hefur gefið út stórskemmtilegar plötur með barnalögum – og hann geislar líka í þessu nýja hlutverki.
Hann talar blátt áfram og heiðarlega, er ekki bundinn af einhverjum annarlegum hagsmunum – virkar eins og fyrirmynd fyrir þá sem starfa í verkalýðsbaráttu.