Einhver sérkennilegasta kenning sem hefur veri sett fram í hagfræði er að ef skattar á ríkt fólk séu nógu lágir þá muni ríkidæmi þess leka niður til þeirra sem hafa minni aura.
Ekkert í mannkynssögunni rennir stoðum undir þessa kenningu.
Aðallinn í Evrópu gaf ekki upp forréttindi sín fyrr en eftir stjórnarbyltingar, eftir hina miklu atvinnuhátttabyltingu á 19. öld háði alþýða manna baráttu upp á líf og dauða fyrir bættum kjörum.
En þessi kenning, sem hefur verið kölluð vúdúhagfræði, á ennþá fylgismenn víða, ekki síst í Bandaríkjunum. Þar hefur hún orðið fastur þáttur í stjórn ríkisins.
Afleiðingin er sú að Bandaríkin eru í alvarlegri skuldakreppu, það vantar fé til að standa undir skólum og innviðir ríkisins eru að grotna niður. Þetta hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allt hagkerfið. Ójöfnuður vex, tugir milljóna eru fastir í fátækt. Það er heldur ekki nóg að hafa vinnu, sum störf eru einfaldlega of illa borguð til að hægt sé að lifa af þeim.
Ef þetta heldur svona áfram má tala um að Bandaríkin séu hnignandi heimsveldi. Peter Bofinger skrifar í Der Spiegel og segir að Bandaríkin verði að hækka skatta.