Katyn er stórmynd eftir Andrzej Wajda, pólskan öldung sem er einn merkasti kvikmyndaleikstjóri sögunnar. Ferill Wajda spannar marga áratugi – en í myndum sínum hefur hann oft fjallað um einstaklinga sem upplifa stóra sögulega atburði og þurfa að velja milli andófs og háska og persónulegs öryggis.
Fáir listamenn hafa fjallað af slíkri dýpt um hin hrikalegu örlög Pólverja á 20. öld. Grunnurinn að myndinni er land sem er klemmt milli tveggja risa þar sem ríkja helstefnur 20. aldarinnar – Þjóðverjar réðust inn í Pólland vestanmegin, Sovétmenn austanmegin, landið var þurrkað út á örskömmum tíma. Báðum megin hófst ofsafengin kúgun og ofbeldi.
Katyn segir frá einum hræðilegasta atburði í pólskri sögu – er þó af nógu að taka – fjöldamorðunum á pólskum liðsforingjum í Katynskógi í Úkraínu.
Það voru Þjóðverjar sem fundu fjöldagröfina árið 1943. Þeir kölluðu til ljósmyndara og alls kyns vitni – atburðurinn varð strax umtalaður, Þjóðverjar sögðu að sökin væri Sovétmanna, fjöldamorðin hefðu verið framin í apríl og maí 1940. Aldrei þessu vant sagði þýska nasistastjórnin satt.
Þegar Sovétmenn lögðu undir sig Pólland og settu á stofn kommmúnistastjórn var sögunni breytt. Þá var því haldið fram að morðin hefðu verið framin 1941, eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin. Þjóðverjar væru semsagt sökudólgarnir. Þeim sem efuðust opinberlega um þessa útgáfu á sögunni var refsað grimmilega. Það er ekki fyrr en nýlega að Rússar viðurkenndu ábyrgð sína á Katynmorðunum – það er svo eins konar eftirmáli við harmleikinn að forseti Póllands og margir frammámenn þar í landi fórust í flugvél sem var á leið í minningarathöfn vegna Katyn í fyrra.
Togstreitan í myndinni er milli þeirra sem vilja sannleikann og þá sem er tilbúnir að gera málamiðlun til að lifa áfram. Hún er sögð annars vegar frá sjónarhóli hinna föngnu liðsforingja, það voru ekki einungis atvinnuhermenn, heldur var líka mikið af menntamönnum sem höfðu verið kvaddir í herinn. Það er talið að 22 þúsund menn hafi verið myrtir í Katyn – með einföldu skoti í gegnum höfuðið eins og er lýst á átakanlegan hátt í myndinni. Morðin eru þaulskipulögð og algjörlega kaldrifjuð.
Hins vegar fylgjumst við með eftirlifendunum, fjölskyldunum sem bíða eiginmanna, sona og heimilisfeðra – og hvernig þær upplifa hvernig Þjóðverjar nota atburðina í áróðursskyni og síðan hvernig Sovétmenn og pólska stjórnin umlykja þá lygi uns er orðið háskalegt að segja satt um Katyn.
Katyn eftir Wajda: Sovétmenn og Þjóðverjar skipta með sér Póllandi eftir griðasáttmála landanna 1939. Bæði alræðisríkin beittu skefjalausri kúgun og ofbeldi – Þjóðverjar opnuðu sínar illræmdu fangabúðir og Sovétmenn fluttu fólk í stórum stíl í Gúlagið.