Ég kom fyrst til Bretlands árið 1977 – þá var pönktíminn og ástandið þótti ekki sérlega gott – margt hefur breyst síðan þá. Það sem mér hefur helst þótt einkenna breskt samfélag hin síðari ár er hömlulaus neysla, hömlulaust kaupæði, hömlulaus drykkja, hömlulaus græðgi peningaaflanna, hömluleysið í sorpressunni, hömlulaus dýrkun á frægu og ríku fólki – og svo hin hömlulausa stéttaskipting sem fer síður en svo batnandi.
Í fáum löndum láta menn sér lynda að svo mikill munur sé milli þjóðfélagshópa, ekki bara hvað varðar efnahag, heldur líka hvað varðar tækifæri til menntunar og mannsæmandi lífs. Breskt samfélag er rist sundur af menningarlegum gjám.
Óeirðirnar síðustu daga koma stjórnvöldum alveg í opna skjöldu. Það er verið að skera niður í Bretlandi og það kemur verst niður á hinum snauðu – en yfirvöld eru ekki í neinum tengslum við það fólk. Eitt atriði sem skiptir máli er miðstýringin – sveitarstjórnarstigið er mjög veikt í Bretlandi, en einmitt þar gæti verið fólk sem hefði skilning á samfélögunum þar sem upplausn ríkir og gæti beitt áhrifum sínum þar. Borgarstjórarnir tveir í London sem hafa setið þar síðan embættið var endurreist (Thatcher hataðist við sveitarstjórnir) hafa verið hálfgerðir trúðar.
Það er ósköp klént að fordæma óeirðirnar einungis sem blint ofbeldi. Auðvitað liggur rót þeirra dýpra. Svona atburðir gerast ekki á stöðum þar sem ríkir sæmileg velsæld, þar sem hugarfarið er þokkalega í lagi.
Laurie Penny skrifar grein um þetta sem lesa má í The Sidney Morning Herald.