Bloggarinn Agnar Kristján Þorsteinsson rifjar upp samskipti sín við Exista og segir meðal annars:
„Eitt orð fær mig alltaf til að gnísta tönnum þegar á það er minnst í umræðunni.
Það er orðið Exista.
Ástæðan er fyrri reynsla af því þegar fyrirtækið sölsaði undir sig þessi litlu hlutabréf sem ég átti í Símanum og það gegn vilja mínum með barbabrellum sem ég lýsti í grein sumarið 2008(finnst m.a. hér hjá Agli Helga), grunlaus um hvert stefndi en fannst viðskiptasiðferðið vægast sagt non-Existant hjá stjórnendum fyrirtækisins. Greininni var svo svarað strax daginn eftir í Morgunblaðinu af yfirmanni samskiptasviðs Exista í þeim dúr að maður væri bara einhver fýlupúki fyrir að vera ósáttur enda væri Exista æðislegt fyrirtæki.
Exista hafði ekki einu sinni efni á því að yfirtaka Símann þá líkt og kom í ljós eftir Hrun heldur var farið út í það að gefa út hlutabréf í sjálfu sér fyrir uppkaupunum, nokkuð sem við grufl í fyrra, virtist hafa verið meginregla hjá fyrirtækinu þegar kom að kaupum á einhverju: gefin út hlutabréf og lítið sem ekkert fé skipti um hendur, bara verðlaus skeinipappír með Exista-lógóinu á.
Á sama tíma stóð fyrirtækið í gegndarlausum lántökum frá Kaupþingi og stöðutöku gegn krónunni líkt og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum sem og skýrslu RNA. Fyrirtækið virðist hafa í reynd verið tæknilega gjaldþrota og það fyrir 2008, en haldið á floti meðan það sogaði til sín lánsfé og stóð svo í svona barbabrellum og blekkingaleikjum um stöðu þess.
Fyrir utan að maður spyr sjálfan sig um hvað ætli hafi orðið um þessa milljarða sem hurfu inn í fyrirtækið en fóru ekki í eignakaup eða annað þá er ýmislegt sem manni finnst ósvarað með Exista-brellur á árinu 2008 þegar kemur að Símanum.
Það fyrsta er hversvegna fyrirtækinu var leyft að fara í þessa sölu og uppkaup í trássi við samninginn um einkavæðinguna þar sem ákvæði var um að Síminn skyldi seldur á hlutabréfamarkaði í dreifða eignaraaðild og ekkert gera þegar Exista svo kipti fyrirtækinu út af markaði í framhaldi til að yfirtaka það með hlutabréfaaukningu í sjálfu sér.“