Fyrir tveimur árum átti ég samtal við einn helsta sérfræðing Frakka í sjávarútvegsmálum.
Ég spurði hvernig hann teldi best að Íslendingar héldu á sínum málum gagnvart ESB.
Hann sagði að við ættum einfaldlega að sækjast eftir status quo – óbreyttri stöðu. Það væru miklar líkur að við fengjum það samþykkt.
Það þýðir að erlend skip koma ekki inn í landhelgina, enda eiga þau ekki rétt til þess samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Þau eiga heldur enga veiðireynslu þar sem hægt er að vísa til.
Hvað varðar flökkustofna sagði hann að þegar væri í gildi samkomulag um þá flesta og þeim þyrfti varla að breyta.
Síðan þá hefur hafist mikil makrílgengd inn í lögsögu Íslands og Færeyja. Það er mál sem verður samið um fyrr eða síðar, hvað sem líður ESB aðild.
En á meðan er það að gerast norður í höfum að Rússar og Norðmenn eru að skipta á milli sín Barentshafinu norður undir heimskaut.
Það er því alveg rétt þegar Össur Skarphéðinsson segir að hugsanlegt sé að Íslendingar þurfi engar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Það er fáránlegt að hneykslast á því og í þessu felst engin eftirgjöf.
En ef svo væri – þá er líklegt að aðildarsamningur við Evrópusambandið yrði kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu hér.
Það verður hann kannski hvort sem er – en það getur ekki verið Össuri í hag að ná lélegum samningi!
Að menn skuli stökkva á þetta sýnir á hvaða hryllilega þrasplani stjórnmálaumræðan á Íslandi er. Þarf hún virkilega að vera svona krampakennd?