Fyrir nokkur hundruð árum var meirihluti Evrópumanna heittrúaður. Menn skiptust í fylkingar eftir því hvort þeir voru mótmælendur eða kaþólskir. Svonefndir trúvillingar voru ofsóttir – jafnvel myrtir kerfisbundið. Það er talið að allt að þrjátíu prósent af íbúum þýsku ríkjanna hafi týnt lífinu í 30 ára stríðinu. Síðar urðu ráðandi stefnur sem voru meira og minna trúlausar, kommúnismi, nasismi og fasismi. Um 1940 var mestöll Evrópa undir oki þessara helstefna, því var ekki endanlega aflétt fyrr en um 1990.
En trúleysið er ennþá staðreynd. Og nokkuð almennt áhugaleysi á skipulögðum trúarbrögðum. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta muni breytast. Mikið er gert úr hættunni af múslimum og íslam – en staðreyndin er sú að flestir múslimar sem koma til Vesturlanda aðlagast vestrænni menningu. Þeir sem vilja kollvarpa þjóðfélagsskipaninni eru í miklum minnihluta – hryðjuverk eru í raun sáralítið vandamál, a.m.k. miðað við hvað hefur verið gert mikið úr hættunni af þeim.
Ég var í Tyrklandi um daginn og kom í stærstu verslunarkringlu Evrópu sem hefur verið byggð í Istanbul. Þar var múgur og margmenni – þetta fólk var a.m.k. ekki moskunni á þessum tíma. Nú er ég í Berlín, ég fór fyrir nokkrum dögum í Kreuzberg, sem er hverfið þar sem settust að flestir Tyrkir. Það er ótrúlegt rugl að halda því fram að samfélaginu stafi einhver hætta af fólkinu þar. Maður eins og Thilo Sarrazin, sem skrifaði bók um hvað þarna væri óskapleg hætta á ferðum, er ekki annað en rasisti í Armanifötum, það er ljótur blettur á tímarit eins og Der Spiegel hvernig það tók málflutning hans upp. Innflytjendum er lýst sem byrði á samfélögum, en staðreyndin er að það eru þeir sem vinna verstu og óeftirsóknarverðustu störfin.
Evrópsk menning breytist stöðugt. Þjóðríkin í Evrópu eru mörg afar ung – til dæmis Þýskaland og Ítalía. Það getur verið að með tíð og tíma verði sumir Evrópumenn aðeins dekkri á hörund og hár en nú er – en það er varla stórkostleg vá. Annars er ég ekki einu sinni viss um það – mér sýnist til dæmis að Frakkar sem einu sinni voru litlir og píreygir séu upp til hópa orðnir hávaxnir og bjarteygir.
Evrópu stafar ekki sérstök ógn af íslam. Það eru allt aðrir hlutir sem eru hættulegri álfunni, velferðarkerfi sem er erfitt að standa undir, lífskjör sem máski er ekki hægt að halda uppi lengur – og einhvers konar endurvakning þjóðernisstefnunnar sem hefur leikið álfuna svo grátt.