Gagnrýni Bjarna Benediktssonar á ríkisreikninginn er að miklu leyti skynsamleg. Það mun seint ganga að skattleggja þjóðir út úr kreppu. Áætlun ríkisstjórnarinnar og AGS gengur út á hallalaus fjárlög árið 2013 – það er vandséð að það náist miðað við þann halla sem nú er á ríkisbúskapnum. Það var talað um að síðustu fjárlög væru þau sársaukamestu frá hruninu – en það er hætt við að það verði ekki mikil gleðitíðindi að finna í næstu fjárlögum. Það verður erfitt verkefni fyrir ríkisstjórnina að koma þeim í gegn. Það er varla annað í spilunum en meiri niðurskurður og meiri skattahækkanir.
Eins og staðan er gengur efnahagsstefnan ekki síðst út á að gengi krónunnar sé lágt svo útflutningsgreinarnar og ferðamannaiðnaðurinn skili ríflegum tekjuafgangi. Verðmætasköpunin er hins vegar ekkert að aukast – en það þarf hún að gera.
Til að kóróna þetta er talað um að vextir þurfi að hækka – í hagkerfi þar sem ríkir algjör kyrrstaða.