Ég hef margsinnis skrifað um það sama og Hilmar Þór Björnsson arkitekt, að framtíð byggðar í Reykjavík liggi úti á Álftanesi. Þetta er í raun sáraeinfalt: Brú yfir Skerjafjörðinn tengir vesturborgina við Álftanes, þá er hægt að komast úr miðbænum og þangað á fáum mínútum og þaðan er stutt að aka í Hafnarfjörð. Með þessu yrði líka kominn hringvegur um höfuðborgarsvæðið – en nú má segja að umferðaræðarnar þar liggi í kross.
Það hefur held ég verið viðtekin hugmynd á Álftanesi að þar eigi að vera einhvers konar sveit í borg – en lega sveitarfélagsins er slík að það er varla stætt á því til langframa.
Hinn möguleikinn er að höfuðborgarsvæðið haldi áfram að þenjast upp í átt til heiða, norður á Kjalarnes og suður í átt til Keflavíkur, en það er miklu óhagkvæmari kostur og verri fyrir borgarmyndina.
Hvað verður um flugvöllinn í þessu skipulagi er spurning. Kannski verður hann áfram á sínum stað – með tíð og tíma má minnka hann verulega. Bessastaðanes hefur reyndar verið nefnt sem ágætis staður fyrir flugvöll, það er furðu víðlent og í tengsl við brúarsmíð yfir Skerjafjörð mætti koma honum fyrir á Lönguskerjum. Þetta er þó framtíðarmúsík – en það sem Hilmar er að benda á í grein sinni er ekki rótttækt eða djarft, heldur einungis skynsemi.