Stundum hafa fæst orð minnsta ábyrgð.
Í gær var farið að tala um það, bæði í virtum fjölmiðlum og á bloggsíðum, að það hlytu að vera íslamskir hryðjuverkamenn sem stóðu fyrir tilræðunum í Noregi.
Þeir eru þekktur óvinur – ef þeir eru á ferð eru á nokkurn hátt atburðirnir skiljanlegir. Menn voru jafnvel farnir að skríða í skotgrafir og segja að Norðmenn væru nú þátttakendur í herleiðöngrum í Afganistan og Líbýu, hefðu þannig kallað þetta yfir sig.
En nú er farið að nafngreina árásarmanninn, TV2 í Noregi fullyrðir að hann heiti Anders Behring Breivik. Hann er norskur, ljóshærður.
Það er spurning með vitorðsmenn – varla hefur maðurinn getað staðið fyrir bæði sprenguárásinni í Osló og morðárásinni á Úteyju. Maður veit þó ekki.
En maður er lostinn harmi vegna þessa – tala látinna á Úteyju er komin í 84. Það má segja að árásin í Osló beinist að einhverju leyti gegn stjórnkerfinu. En þetta eru ungmenni, krakkar úr ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks. Þetta er slíkt fólskuverk að maður á ekki orð.