Morgunblaðið bar höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla þegar ég var að byrja í blaðamennsku. Ég var á Tímanum og seinna á Helgarpóstinum. Þetta voru allt dvergar í samanburði við Morgunblaðið. Það var helst að DV næði stundum til nokkurs fjölda lesenda.
Morgunblaðið studdi Sjálfstæðisflokkinn – en sá stuðningur varð ekki alveg jafn skilyrðislaus þegar leið á ritstjórnartíð Matthíasar Johannessen. Matthías er húmanisti og hugsar ekki alveg eftir flokkslínum.
Þetta var besti tími Moggans – en ég nefni líka tímann eftir hrun þegar allt var á huldu með eignarhald blaðsins. Það var mjög merkilegt tímabil undir stjórn Ólafs Stephensen.
Matthías hætti fyrir tíu árum og við tók skeið þar sem flokkurinn náði aftur að herða tökin á blaðinu. Þá var Davíð Oddsson forsætisráðherra.
Á þessum árum voru tök Sjálfstæðisflokksins í fjölmiðlum feiki sterk. DV var um tíma undir stjórn mjög eindreginna flokksmanna. Útvarpsstjórinn á Ríkisútvarpinu var fyrrverandi borgarstjóri úr flokknum. Flokksmenn höfðu mjög greiðan aðgang að sjónvarpinu í tíð hans og nokkurra dagskrárstjóra og fréttastjóra sem voru hallir undir flokkinn.
Flokksblöðin – dvergarnir – liðu undir lok. Þau voru alltaf þægilegir andstæðingar fyrir risann. Síðast fór Dagur sem var einhvers konar tilraun til að bræða saman flokksblöðin í eitt.
Þá var Fréttablaðið stofnað í anda fríblaða sem voru að verða vinsæl úti í heimi. Fríblöðin gengu svo vel um tíma að talað var um að tími blaða sem eru seld væri að líða undir lok. Sú hefur ekki orðið raunin. En Fréttablaðið skákaði Morgunblaðinu frá fyrstu tíð. Annað gat í raun ekki verið, blaðið var borið í hvert hús – á sama tíma og áskriftarblöð hvarvetna í heiminum voru í vandræðum. Blaðið átti það til að gagnrýna flokkinn og Davíð Oddsson – og sú gagnrýni rataði til hérumbil allra Íslendinga. Það var ný staða.
Þetta olli miklu uppnámi. Mogginn hafði verið stærsta blað á Íslandi í sjötíu ár. Þarna var allt í einu komin önnur rödd sem yfirgnæfði hann. En Fréttablaðið stóð ekki undir sér í fyrstu tilraun. Það var ekki fyrr en Jón Ásgeir og Baugur komu til skjalanna að blaðið náði alvöru fótfestu. Ástæðan var auðvitað sú að þá tóku auglýsingar að streyma inn í blaðið frá fyrirtækjum Baugs og tengdum aðilum. Jú, nafnið Baugsmiðill átti alveg við.
Baugur er liðinn undir lok, en það er einkennileg staða að einn vafasamasti karakter á Íslandi, tákngervingur útrásarinnar, skuli ennþá halda dauðahaldi í Fréttablaðið (og Stöð 2). Eignarhald Jóns Ásgeirs á fjölmiðlunum var alltaf skaðlegt fyrir þá – sérstaklega Fréttablaðið sem oft gekk blygðunarlaust erinda eiganda síns – en nú er það beinlínis fáránlegt. Maðurinn sætir rannsókn í fjölda mála tengdum hruninu. Hann og klíkan í kringum hann eru algjörlega óhæf til að eiga fjölmiðla – og það er einkennilegt að blaða- og fréttamenn skuli sitja þegjandi undir þessu.
Á hinum vængnum er Morgunblaðið. Og þar er uppi sú staða að annar hrunvaldur. Davíð Oddsson, stjórnar bæði ritstjórnarskrifum og fréttaflutningi. Hvort tveggja verður stöðugt skrítnara og öfgafyllra – og maður skilur ekki alveg hvernig blaðamennirnir láta sér lynda að sitja undir þessu.
Nú er reynt að dúkka upp með kenningar um að Jón Ásgeir hafi stofnað einhvers konar Murdoch veldi á Íslandi. Áhrif hans í fjölmiðlum eru í hæsta máta óæskileg, en fyrir þá sem setja fram þessar kenningar snerist þetta alltaf um völd. Þegar Morgunblaðið missti áratugalangt drottnunarvald sitt á fjölmiðlamarkaði urðu þeir mjög reiðir – og þeir fóru í stríð. Á sínum tíma voru þeir líka í orrustu gegn Jóni Ólafssyni, sem þá átti Stöð 2. Hún lagði ekki undir sig samfélagið á sama hátt og stríðið við Jón Ásgeir – en snerist líka um yfirráðin yfir fjölmiðlunum.
Nú erum við reyndar í þeirri stöðu að bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið eru höll undir Sjálfstæðisflokkinn, hvort á sinn hátt. DV reynir að ströggla – og það er besta og frjálsasta blað sem er gefið út á Íslandi. Það væri slæmt ef DV þyrfti að leggja upp laupana eða gefa sig hrunverjum á vald.