Það er einkennileg hugmynd að heimsókn kínversks forsætisráðherra til Íslands myndi senda einhver sérstök skilaboð til Evrópusambandsins – eða að framtíð Íslands liggi einhvern veginn í nánu sambandi við herskálakapítalistana eystra.
Evrópusambandið á í miklum samskiptum við Kína – og þau eru svosem ekki að öllu leyti jákvæð. Kína framleiðir ókjör af ódýrum varningi sem flæðir yfir markaði í Evrópu – og gæti í raun framleitt miklu meira.. Sá fjöldi Íslendinga sem býr á Suður-Spáni veit að þar er allt að drukkna í kínverskum búðum og kínverskum veitingahúsum. Innfæddir standast illa þessa samkeppni. Undirboðin eru sums staðar með ólíkindum. Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum – atvinnan hefur verið að færast þaðan til Kína. Það er sjálft inntak alþjóðavæðingarinnar.
Kínverjar kaupa líka gríðarmikið af varningi frá Evrópu – mest frá Þýskalandi. En það hallar samt nokkuð á. Árið 2010 fluttu Evrópusambandsríki inn vörur frá Kína fyrir 281 milljarð evra, en Kína keypti vörur frá ESB að upphæð 113 milljarða evra. Þetta er aðallega iðnvarningur og tæki en í auknum mæli lúxusvörur.
Vegna þess hvernig vinnumarkaðnum og viðskiptalífinu er háttað í Kína er erfitt að koma á frjálsum viðskiptum við landið. Kínverjar geta undirboðið framleiðslu frá flestum löndum, þeir virða ekki höfundarétt og auk þess hafa þeir miklar aðgangshindranir fyrir þá sem vilja versla við landið. Þess utan stundar Kínastjórn stundar ritskoðun og heldur fjölda af andstæðingum sínum í fangelsum. Verslun við Kína er semsagt ýmsum vandkvæðum bundin.
Það er líka vandséð hvað við Íslendingar ættum að geta flutt til Kína, útflutningsvara okkar er helst fiskur sem við flytjum á markaði sem nær okkur. Annar möguleiki er að Kínverjar fjárfesti í orkufrekum iðnaði hér – en það kynni að vera umdeilt. Og kínverskum ferðamönnum fjölgar ábyggilega á næstu árum, þeir eru núorðið komnir út um allt í Evrópu.
Kínverjar eru býsna strategískir í hugsun. Indverskur sérfræðingur sem ég ræddi við sagði að það væri líkt og þetta væri partur af eðli þjóðarinnar. Hann sagði að almennt væru stjórnmála- og embættismenn í Kína ekkert sérlega vel menntaðir – margir hefðu alist upp á tíma menningarbyltingarinnar þegar var enga menntun af viti að fá í landinu. Utanríkisstefnu þeirra er líkt við borðleikinn go sem byggist á að valda sem flesta reiti. Kínverjar eru til dæmis orðnir mjög fyrirferðarmikir í Afríku – heimsálfu sem Vesturlönd sinna lítið – og þeir eiga stærsta hlutann af erlendum skuldum Bandaríkjanna og í Evrópu eru þeir býsna fyrirferðarmiklir.