Grikkir og Tyrkir hafa lengi eldað grátt silfur saman, og oft verður maður hálf örvæntingarfullur yfir gagnkvæmri vanþekkingu og skilningsleysinu sem ríkir milli þessara þjóða.
Því Grikkir og Tyrkir eiga margt sameiginlegt. Þeir deila sama heimshluta, báðar þjóðir horfa út á Eyjahaf, í tungumálunum er fullt af tökuorðum úr máli hins, þeir borða svipaðan mat og hafa gaman af áþekkri tónlist.
Tyrknesk sápuópera hefur valdið nokkurri viðhorfsbreytingu til Tyrkja meðal grísku þjóðarinnar. Hún nefnist Binbir Gece á frummálinu – það mun útleggjast sem Þúsund og ein nótt.
Þessi sjónvarpssería þykir ansi vel gerð – og hún sló svo rækilega í gegn í Grikklandi að hálf þjóðin fylgdist með henni.
Hún fjallar um átök og ástir meðal fólks í Tyrklandi. Þetta er efnafólk, það er sagt að Grikkirnir sem horfðu á hafi hugsað: „Þeir eru ríkari en við!“
Það er þó ekki alveg einhlítt. Tyrkland er vissulega á fleygiferð. Það var 11 prósenta hagvöxtur hér í fyrra. Mikið af erlendum fyrirtækjum hefur flutt framleiðslu sína hingað vegna þess að launakostnaðurinn er lágur. Íbúafjöldi Istanbul hefur þrefaldast á þremur áratugum. Ég fór í dag í verslunarkringlu sem er sögð vera sú stærsta í Evrópu. Vörurnar voru samt yfirleitt þess eðlis að fæstir hefðu litið við þeim norðar í álfunni, fatnaðurinn var óvandaður sem endurspeglar hinn lágu laun sem hér tíðkast yfirleitt. Ríka fólkið fer í hverfi sem nefnist Nisantasi, þar er eru lúxusbúðir, Rolex, Hermes og Dior.
Munurinn milli ríkra og fátækra er himinhrópandi hérna. Maður sér það vel þegar maður siglir meðfram Bosporussundi. Þar standa hvarvetna glæsivillur meðfram ströndinni með sundlaugum og einkabátum. Ströndin er lokuð almenningi sem þarf að troðast saman á pínulitla reiti sem eru á milli glæsihúsanna. Kofaborgunum, sem voru farnar að hlaðast upp utan við Istanbul, hefur að nokkru leyti verið útrýmt. Í staðinn hefur fólkinu verið smalað inn í háhýsi sem þykja eiginlega enn verri staðir – þar vantar alveg samfélagsvitundina sem þó var að finna í kofaborgunum.