Sauðfjárbúskapur á Íslandi er alls góðs maklegur – hann hefur verið stundaður hér frá uppruna byggðar – og afraksturinn er gæðavara sem á að geta spjarað sig vel á markaði.
En kerfið er skrítið kerfi.
Nú er skortur á dilkakjöti á Íslandi.
Ástæðan er sú að svo mikið er flutt út af kjöti.
Íslendingar borga stórar fjárhæðir með sauðfjárræktinni. Hún er styrkt í bak og fyrir.
Og það eru feikimiklar takmarkanir á kjötinnflutningi til að venda sauðfjárrætktina.
En grundvöllurinn fyrir þessu er eiginlega brostinn ef framleiðslan er flutt út. Þá erum við að niðurgreiða kjöt í stórum stíl ofan í útlendinga.
Nú stendur líka til að hækka kjötið um 25 prósent. Það er reyndar mjög skiljanlegt að bændur vilji fá meira fyrir afurðir sínar – og það er sjálfsagt að þeir herji á milliliðina sem eru að sliga kerfið.
Talsmenn sauðfjárbænda segja að þeir vilji hækka í samræmi við það sem hefur gerst á heimsmarkaði. En fyrir íslenska neytendur er það skrítin staða – því þeir eru ekki tengdir við heimsmarkaðinn.