fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Eyjan

Eyjan, frá fátækt til velmegunar

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. júlí 2011 18:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan sem við dveljum á var lengst af bláfátæk. Hún er eins og harður klettur í hafinu, umkringd öðrum eyjum sem flestar eru frekar snauðar af gróðri og auðlindum, en líta út eins gimsteinar í bláu Eyjahafinu. Sólsetrin hérna er sérlega fögur.

Fólkið dró fram lífið með því að yrkja þessa hörðu kletta. Hvarvetna er veggir úr steini umhverfis litla gróðurreiti. Þetta hefur útheimt mikið strit og þolinmæði, en tíminn hér er líka langur. Það hafa fundist merki um mannvistir hér frá því löngu fyrir Krists burð.

Það er lítið vatn. Það er helst að fá í djúpum brunnum og svo var safnað regnvatni á veturna. Hér er kalt og vindasamt á vetrum – og á sumrin geta líka gnauðað vindar sem verða býsna kaldir þegar kvöldar. Hitinn hér verður sjaldnast óbærilegur. Í gær var hvínandi rok.

Fólkið ræktaði grænmeti en það hefur ekki verið mikið um korn. Það hélt geitur og asna og eitthvað af hænum. Fiskveiðar voru stundaðar hérna í kring en fiskimiðin eru ekkert sérlega gjöful. Á vesturhluta eyjarinnar er þorpið Ano Meria þar sem þessir fornu lífshættir eru enn stundaðir að miklu leyti. Þar ríður fólk á ösnum og þar er eins og tíminn standi í stað.

Aðalbærinn, Hora er öðruvísi staður,  hann er í hefðbundnum stíl bæja í Hringeyjaklasanum – göturnar eru þröngar og hlykkjóttar, húsin eru lágreist og skínandi hvít, það eru fögur torg og kirkjur út um allt.

Sjóræningjar voru helsta ógnin fyrr á tímum. Þeir komu og námu fólk á brott og seldu það mansali. Það eru dæmi um að heilu eyjarnar hafi verið tæmdar af fólki. Stundum risu upp veldi sem létu til sín taka. Feneyingar voru lengi ráðandi á svæðinu og byggðu kastala. Þeir heimtuðu skatt – en á móti kom að þeir gátu veitt vernd gegn sjóránum.

Fólkið sá varla peninga fyrr en í lok 19. aldar að talsvert af eyjaskeggjum fer til Alexandríu að vinna. Alexandría var þá grísk borg og hafði verið frá stofnun hennar. Alexandríufararnir sendu peninga heim og þegar þeir sneru aftur áttu þeir fé til að byggja glæsilegri hús en hafði áður þekkst.

En eyjan var áfram einangruð. Hún var notuð sem staður fyrir pólitíska útlaga á tíma einræðisherrans Metaxas sem ríkti frá 1936 til 1941 og aftur á tíma herforingjastjórnarinnar frá 1967 til 1974. Það er sagt að útlagarnir hafi þrifst nokkuð vel á eyjunni, enda er fólkið vingjarnlegt og gestrisið. Það voru þó undantekningar á því sumir bændur óttuðust um að ekki væri nóg til skiptanna.

Í stríðinu mun hafa verið einn þýskur hermaður á eyjunni og hafði hann undir sér ítalskan herflokk. Eftir stríðið var einn samverkamaður Öxulveldanna drepinn með öxi úti á götu í Hora. Sá sem verknaðinn framdi þurfti ekki að svara fyrir hann – hann varð gamall maður sem allir þekktu og dó fyrir nokkrum árum.

Rafmagn komst ekki á fyrr en eftir fall herforingjanna, á áttunda áratugnum.

Tímarnir hafa breyst. Ferðamannastraumur til eyjarinnar hefur aukist og margir af íbúunum eru farnir að upplifa talsvert ríkidæmi. Verð á húsnæði og landi hefur hækkað mikið. Þetta er vandmeðfarið. Þeir sem unna eyjunni eru hræddir um að það verði byggt of mikið – nágrannaeyjan Santorini er víti til að varast – og viðkvæm náttúran þoli ekki áganginn. Hvað á til dæmis að gera við skólpið? En fólkið á auðvitað skilið að upplifa velmegun. Vegna þess að þetta telst vera útkjálki hefur nokkur hluti af uppbyggingu ferðaþjónustunnar verið með styrkjum frá Evrópusambandinu.

Helsta vandamálið sem lögreglumaðurinn á eyjunni þarf að glíma við – hann er laglegur grásprengdur maður með hrjúft yfirbragð, aldrei í einkennisbúningi, og gæti sómt sér í hvaða lögguþætti sem er (ég myndi láta George Clooney leika hann í bíómynd) – er að skera úr um árekstra sem verða vegna veitingahúsa og hótela. Það er til dæmis ekki alltaf einfalt að ákveða hvenær útisvæði eins veitingahússins endar og hvar svæði hins tekur við. Hér fyrir framan þar sem við dveljum byggði maður nokkur – unnusti lyfsalans – hótel í óleyfi. Hann hefur nú verið dæmdur til að rífa það, en hann tregast við að gera það.

Nú er efnahagskreppa í Grikklandi. Fólk á eyju eins og þessari hefur þekkt tímana tvenna. Fyrir tíma ferðamannaiðnaðarins var sagt að það væri lítið líf á mörgum eyjum nema gamlar konur sem færu á pósthúsið við og við til að sækja peningana sem börnin sendu frá Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada. Fólksflutningar hafa verið veruleiki hérna í langan tíma. Melbourne í Ástralíu er ein stærsta gríska borg í heiminum.

Maður verður ekki mikið var við kreppuna hérna. Kannski hafa færri Grikkir efni á að ferðast hingað en undanfarin ár. Hér er maður nokkuð mikið utan við heiminn. Innan fárra daga fer ég til Aþenu og það verður forvitnilegt að koma á Syntagmatorgið þar sem mótmælendur halda fyrir.

hora_folegandrosBærinn Hora á Folegandros.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði