DV birti í gær merkilega útttekt á því hvernig Byr var misnotaður af Jóni Ásgeiri, Pálma í Fons og þeim félögum.
Samkvæmt dómnum sem féll í Exetermálinu verður þó varla hægt að koma lögum yfir þá félaga vegna þessa athæfis – dómurinn gengur út á að þurfi að sanna að fyrir hendi sé ásetningur um að valda tjóni.
Þannig þurfa menn í raun að játa að hafa ætlað að vinna mein til að hægt sé að dæma þá fyrir svona athæfi.
Þetta er eiginlega nýung í íslensku réttarfari, en viti menn, formaður lögmannafélagsins fagnar þessu, rétt eins og yfirleitt þegar fjárplógsmenn eygja von um að sleppa undan réttvísinni – og raunar kynferðisglæpamenn líka. Formaðurinn er ágætt skemmtiefni í bloggheimum, en það er furðulegt að stéttin skuli velja hann sem foringja sinn og talsmann.
Talað er um að Hæstiréttur muni snúa við þessum dómi, en ég hef enga obboslega trú á því. Við erum lítið samfélag sem skiptist í klíkur – og það virðist lítið ætla að breytast þrátt fyrir hrun.