fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Eyjan

Guðbjörn: Verndum einokun og fákeppni

Egill Helgason
Þriðjudaginn 12. júlí 2011 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dalamaðurinn Guðbjörn Guðbjörnsson, söngvari, tollvörður, frændi og sveitungi Ásmundar Einars Daðasonar, skrifar um einokunarkerfi í landbúnaðinum á bloggsíðu sína hér á Eyjunni. Pistillinn er svohljóðandi.

„Ég skil Einar Sigurðsson, forstjóra MS, þegar hann útskýrir af hverju hann horfir bara á sína eigin persónulegu hagsmuni, hagsmuni fyrirtækisins og starfsmanna þess. Og auðvitað er yfirstjórn fyrirtækis, þar sem eflaust situr einungis fólk með feiknargott kaup og prýðileg önnur kjör, sammála um að verja sitt – nema hvað! Auðvitað væri afleitt að verða þvinguð til að gefa upp þá “samkeppnisstöðu” sína, að verða tilneydd að keppa við einhver útlend fyrirtæki á mjólkurvörumarkaði, þar sem ríkt hefur hálfgerð einokun – í besta falli fákeppni – frá því að elstu menn muna! Ég viðurkenni sem sé að það eru svo sannarlega mannleg viðbrögð að verja sína einokunastöðu og stunda grímulausa sérhagsmunagæslu. Hér á landi er mikið um einokun, fákeppni og sérhagsmuni og því er andstaða þess fólks, sem situr við kjötkatlana, gegn ESB-aðild fullkomlega skiljanlegt og eðlilegt fyrirbæri.

Ég myndi líka vilja reka fyrirtæki í matvælavinnslu, þar sem ég ákveð söluverðið á vörunni og síðan sjá stéttarfélagið í Bændahöllinni og embættismenn um að koma skilaboðum til landbúnaðarráðherra um hversu háir verndartollarnir þurfi að vera – m.t.t. gengisskráningar og verðs á erlendum mörkuðum – þar til enginn getur keppt við mann í verði og öll samkeppni hefur verið kæfð í fæðingu! Já, maður getur ekki verið annað en sammála Einari, að hér er um algjöra draumastöðu fyrir viðkomandi fyrirtæki að ræða, en hins vegar um martöð að ræða fyrir íslenska neytendur og þá sem standa í viðskipum með matvöru! Maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af rekstrinum þegar maður er í þessum bransa, því verðið er alltaf látið dekka kostnað og skila “eðlilegum” hagnaði! Og framleiðendur hráefnis eru líka vel settir, því mjólkurlítrinn er alltaf miðaður við það að búskussinn með lægstu framlegð hafi það af!

Og þarna erum við komin að kjarna málsins, sem ég bara hreinlega ekki skil. Ég skil ekki að íslenskir neytendur leyfi slíka “markaðsmisnotkun” á sér – svo jaðrar við “markaðsnauðgun”. Íslenskir neytendur leyfa þarna sérhagsmunaseggjunum að komast upp með okrið og spillinguna og bæta síðan gráu ofan á svart með því að verja landbúnaðarsukkið með kjafti og klóm án þess að vita beint af því eða fá nokkuð fyrir sinn snúð nema að láta svína á sér! Sérhagsmunaöflin nýta sér meira að segja þá “þjóðernisöfgatilfinningu”, sem blossaði upp í kjölfar hrunsins og Icesave, til að innsigla sinn sigur! Auðvitað hlær þetta sama fólk síðan að íslenskum einfeldingum í laumi og heldur uppteknum hætti! Almenningur er svo laminn og barinn af kúgurum sínum, að einna helst er hægt að líkja því við heimilisofbeldi. Þannig ver fólkið í landinu og réttlætir markaðsmisnotkunina með því að segja: “Já, en þetta eru nú bestu ostar í heimi og hvað með matvælaöryggið? Jú, mér finnst bara allt í lagi að borga tvöfalt verð fyrir íslenska vöru! Landið má ekki leggjast í eyði!” – svo eitthvað af þessum frösum sem maður heyrir á hverjum degi séu týndir til.

Mjólkurbændur eru ekki fjölmennasta stétt landsins og sama má segja um þá sem vinna í mjólkurbúum. En auðvitað eru hagsmunir örfárra teknir fram yfir hagsmuni fjöldans, því þannig hefur það alltaf verið í þessu guðsvolaða landi. Man þjóðin eftir harmkvæðum salgætisframleiðenda þegar EES samningurinn var samþykktur? Eru Nói & Síríus, Ópal, Góa og önnur fyrirtæki farin á hausinn? Ó nei, þau stóðu af sér samkeppnina frá Evrópu með glæsibrag og eru ef eitthvað öflugri, enda um frábæra vöru að ræða á ágætis verði að ræða! Við eigum að hætta þessu væli og minnimáttarkennd og hjálpa þá frekar íslenskum mjólkur- og ostaiðnaði að takast á við erlenda samkeppni, því ég vil íslenskum landbúnaði og matvælaiðnaði vel! Við munum án efa flytja út gæðavöru á háu verði, t.d. skyr, verðlaunaosta og blessað fjallalambið. Kannski hættum við að reyna það sem við ekki getum, þ.e.a.s. að framleiða “ódýran” skólaost, og flytjum inn fjöldaframleiddan, ódýran ost til daglegs brúks en gæðum okkur síðan á íslenskum og erlendum ostum með rauðvínsglasi á laugardagskvöldum. Þá getum við með stolti fullyrt að íslensku gæðaostarnir gefi þeim erlendu svo sannarlega ekki eftir, hvorki í verði eða gæðum!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV

Sigurður Gylfi skrifar: Háskólinn og Hótel Saga sáluga – Svar við rangfærslum DV
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn fyrri ríkisstjórnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði