Manni þótti Hótel Loftleiðir býsna flottur staður þegar maður var strákur.
Þar var meira að segja sundlaug innandyra og gufubað – maður heyrði sögur af fólki sem hafði komið þangað.
Það var fólk sem kunni að lifa lífinu.
Í Víkingasalnum var framreitt kalt borð – ég er enn að bíða eftir að komast aftur í kalt borð eins og var á þeim tíma.
Og á barnum vissi maður að voru flottir karlar í jakkafötum og konur með túberað hár – allir með longdrinks í hendi.
Nú á að breyta nafni hótelsins – það á að heita Hotel Natura. Það er dálítið annað en í gamla daga, tímarnir hafa breyst. Stíllinn sem er lýst hér að ofan er horfinn.
Í tilefni af þessu birtist opnuauglýsing í Fréttablaðinu með mynd úr anddyri Loftleiðahótelsins, sem er líklega tekin skömmu eftir opnun þess.
Það verður ekki betur séð en að konan sem situr á tali við karlmann fyrir miðri mynd sé Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi flugfreyja.