Hluti Samfylkingarinnar er í óða önn að byggja brú yfir til Sjálfstæðisflokksins. Liður í þessum áformum er að láta Vinstri græna sitja uppi með landsdóminn yfir Geir. Það má sjá glitta í þetta þegar Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar, ræðst að rannsóknarnefnd Alþingis á fundi stuðningsmanna Geirs. Geir segir að Ögmundur og Steingrímur beri ábyrgð á málinu, en nefnir ekki Samfylkinguna.
Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins með Bjarna Ben formann, Ólöfu Nordal varaformann og stóran hluta þingflokksins er að leita að framtíð í pólitíkinni – eftir átökin um Icesave sjá þau sinn helsta óvin í Hádegismóra. Þeirra biður erfiður landsfundur í haust. Evrópusambandsmálin gætu hreinlega klofið flokkinn – það er óþolandi fyrir núverandi ráðamenn í Valhöll að stefnan sé mótuð í Háegismóum.
Kenningin segir að Styrmir Gunnarsson hafi verið ansi nærri lagi þegar hann fór að tala um Össur sem formann Samfylkingarinnar. Því þetta felur auðvitað í sér að Jóhönnu Sigurðardóttur yrði fórnað. Kannski er hennar tími búinn.
Samfylkingarfólkið telur sig hafa séð að eina leið þess í pólitík sé að koma aftur á laggirnar ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum – að skilja hin sundruðu Vinstri græn eftir í rústum óvinsællar ríkisstjórnar. Annars bíði flokksins ekkert annað en afhroð – og að kærasta stefnumálið, ESB, færi í vaskinn.
Viljinn stendur semsagt til þess að endurvekja hrunstjórnina, og þá líklega með Össur sem forsætisráðherra. Það myndi þýða tvennt: Samfylkingin gefur eftir í kvótamálunum – stuðningur hennar við kvótafrumvörp Jóns Bjarnasonar er hvort eð er mjög dræmur – og Sjálfstæðisflokkurinn veitir á móti einhvers konar hlutleysi varðandi Evrópusambandsumsóknina. Það myndi jafnvel gefa flokknum ráðrúm til að skipta um stefnu þegar kemur að því að ráða málinu til lykta. Sjálfstæðisflokkurinn þarf líka að sleppa með einhverjum hætti undan kvótamálunum, fæstir skilja hina ofsafengnu vörn hans fyrir kerfi sem þorri þjóðarinnar hefur óbeit á.
Eða eins og maður sem veltir fyrir sér hinni leikjafræðilegu hlið stjórnmálanna komst að orði: „Þarna fengist tveggja ára ráðrúm og þarf ekki meira til í landi gullfiskaminnisins.“