Hópur skólabarna fór að grilla í Hljómskálagarðinum í gær.
Mávager sveimaði yfir. Gerðist ágengara þegar leið á veisluna.
Maður var farinn að óttast að mávarnir létu sér ekki nægja molana af grillinu – heldur hyrfu kannski á brott með börnin líka.
Þeir skræktu ógurlega þannig að fór um gestina.
Einhverjir gripu til kaldhæðininnar og sögðu að réttast væri að halda sérstaka grillveislu bara fyrir mávana – og setja þá vænan skammt af eitri út í veisluföngin.
Þetta er hálfgert ógeð. Ekki af því að mávar eigi ekki sinn tilverurétt, heldur vegna þess að fjöldi þeirra og hvað þeir eru ágengir ber vott um mikið ójafnvægi á svæðinu þarna í kringum Tjörnina.
Það er vitað að krían hefur meira og minna forðað sér, andarungar eru hættir að komast á legg, og nú sér maður þá breytingu að gæsin hefur líka látið sig hverfa. Gæsir hafa verið mjög stórtækar í að skíta út Hljómskálagarðinn, en nú eru þær komnar út undir Öskju og Norræna hús og skíta þar í gríð og erg.