Því fjölgar enn fólkinu sem stígur fram og segir sögur af framferði stjórnenda Landakotsskóla á árum áður.
Ég er alinn upp í Vesturbænum, gekk í Vesturbæjarskólann sem þá var á Öldugötu – var þá yfirleitt kallaður Öldugötuskóli. Það var sérlega indæll skóli.
Við krakkarnir þar vorkenndum börnunum í Landakotsskóla.
Börn eru býsna nösk. Maður fann að einhverju illu stafaði af þessu fólki – ekki síst séra Georg sem var alltaf leiðinlegur við okkur krakkana sem lékum okkur á Landakotstúninu.