Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru að hefjast.
Þetta gerist á skrítnum tíma, þegar er líkt og nokkrar meginstoðir sambandins séu að gefa eftir.
Schengensamningurinn um frjálsa för milli landa er í uppnámi vegna vaxandi andúðar á innflytjendum.
Evran sem átti að verða kórónan á samrunaferlinu í Evrópu er í kreppu. Aðalástæðan er sú að inn í evrusamstarfið var á sínum tíma hleypt þjóðum sem áttu alls ekki heima þar. Evran skapaði falskt góðæri, en svo hrundi allt.
Það er reyndar þversögn að á meðan útjaðrar Evrópu í suðri og vestri eru í kreppu, þá er betri gangur í efnahagslífinu víðast í Norður-Evrópu en í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Svo er líka talað um að Evrópusambandið sé í tilvistarkreppu. Sumir halda því fram að það muni liðast í sundur. Það er líklega ofmælt. En það gæti tekið talsverðum breytingum – evran útheimtir í raun samræmdari fjármálastjórn í ríkjum sambandsins, en í raun stefnir í aðra átt – ríkin eru að fjarlægjast hvort annað. Kannski færðist Evrópusambandið of mikið í fang með hinni sameiginlegu mynt og mikilli fjölgun aðildarríkja – og kannski var ekki heldur almennilegur lýðræðislegur vilji meðal þjóðanna fyrir þessu?
Það má svo deila um hvort þetta sé góð eða vond þróun – en framhjá henni verður ekki litið.