Ég hef farið talsvert um þau svæði á Íslandi þar sem mest er af fugli þetta vor og sumar.
Um Snæfellsnes, út í Vestmannaeyjar – já, og í gær hjóluðum við Kári út að Gróttu og Nestjörn í bíðviðrinu.
Þegar ég var strákur var faðir minn að reyna að kenna mér að þekkja fugla (og blóm) en ég var algjörlega ómóttækilegur. Kári hefur engan ofboðslegan áhuga heldur. En nú finnst mér gaman að kunna svolítil skil á þessu.
En fuglalífið hérna er sérlega fjölbreytt. Á ferð okkar í gær sáum við æðarfugl með unga úti við Gróttu, kríurnar voru farnar að hnita í kringum okkur við Nestjörn, þar var líka tjaldur í litlum hóp, en þegar við komum út að Norræna húsi voru þar gæsir með unga sína og hvæstu að okkur þegar við komum nálægt. Þar var líka lóa að spóka sig.
Það er merkilegt að hugsa til þess að þegar fyrstu landnámsmennirnir komu á þessa eyju úti í Atlantshafi var hér ríki fuglanna. Fuglarnir áttu staðinn – fyrir utan refinn sem var eina spendýrið sem þá var til á landinu.
Skolli hefur sjálfsagt unað sér vel, nóg af fugli og fiski, hann hefur verið kóngur í ríki sínu.