Ég held ekki að það sé algengt að Vetrarferð Schuberts sé flutt fyrir meira en 1500 áhorfendur í einu. Yfirleitt er hún flutt í minna rými.
En á tónleikum Eldborgarsal Hörpu í kvöld léku og sungu Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson verkið fyrir fullum sal.
Og merkilegt nokk – hljómburðurinn í salnum er svo góður að það er hægt að flytja svo innilega og lágværa tónlist þar.
Það var nokkur eftirvænting sem fylgdi því að sjá Kristin, sem er okkar helsti klassíski söngvari, margreyndur tónlistarmaður og mjög lofaður, flytja þetta verk með hinum unga píanista. Kristinn hefur lengstum verið í félagi við Jónas Ingimundarson þegar ljóðasöngur er annars vegar.
Maður sér fyrir sér risann Kristinn – hann er jú með stærstu mönnum – taka hinn mjóslegna píanóleikara undir arm sinn. Og að sumu leyti var það upplifunin af tónleikunum, Kristinn virkaði nánast föðurlegur á sviðinu. Túlkun hans á Vetrarferðinni er djúp og glæsileg. Það reynir ábyggilega á að syngja öll tuttugu og fjögur lögin fyrir svona stóran sal.
Þegar flutningnum var lokið fengu þeir standandi lófatak. Þá benti Kristinn margoft á Víking, eins og til að segja áhorfendum að það væri hann sem ætti mesta hrósið skilið. Og það er mikið til í því. Píanóleikur Víkings var í hæsta klassa. Einn tónleikagestur kom að máli við mig þegar var komið út í kvöldblíðuna – það var reyndar smá rigning – og sagði að hann ætti fjörutíu útgáfur af Vetrarferðinni, en aldrei hefði hann heyrt píanóleikarann gera þetta jafnvel og Víking.