Þjóðstjórn í Grikklandi, eða stjórn stærstu flokkanna, Pasok og Nea Demokratia, virðist vera í spilunum. Það er þó ekki eftirsóknarvert að stjórna landinu á þessum tímapunkti. En Georg Papandreou virðist ekki geta komið síðustu efnahagsráðstöfunum sínum gegnum þingið.
Papandreou naut trausts í fyrstu en nú hefur hann þurft að beita sér fyrir svo mörgum erfiðum málum að hann er að verða fjarska óvinsæll.
Mótmælendur sem kalla sig hina hneyksluðu, aganaktismenoi, í anda indignados á Spáni hafa staði fyrir miklum mótmælum og það hafa brotist út verkföll. Í dag átti að koma í veg fyrir að þingmenn næðu að komast í þinghúsið við Syntagmatorg. Menn spyrja jafnvel hvort stjórnin í Aþenu sé að missa stjórn á ríkinu.
Mótmælin bera vott um reiði og örvæntingu. Því Grikkir hafa í raun enga góða kosti. Hagkerfið þar er rjúkandi rúst. Þeir geta reynt að halda áfram að þrauka samkvæmt prógrami ESB og AGS, en það þýðir mikinn niðurskurð í ríkisbúskapnum og velferðarkerfinu, aukna skattheimtu – já, Grikkir þurfa að læra að borga skatta – og í raun að Grikkir missa efnhagslegt sjálfstæði um hríð.
Hinn valkosturinn er slæmur líka – það er að ríkið lýsi því einfaldlega yfir að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar – að það sé komið í þrot. Það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar – Grikkir geta þá ekki lengur fengið lánaða peninga og það mun líklega renna upp skeið efnahagslegrar ringulreiðar.
Mótmælendurnir standa vaktina á Syntagmatorgi en í raun er nokkuð óljóst hvað þeir eru að biðja um. En í raun getur þetta varla farið öðruvísi en að bankar þurfi að afskrifa nokkuð af skuldum Grikklands. Það mun þýða að bankar bæði í Evópu og Bandaríkjunum tapa fé. Um þetta virðist vera ágreiningur milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópska seðlabankans. Þessar stofnanir draga lappirnar, líkt og þær trúi því að vandamálið verði betur viðráðanlegt ef því er frestað.
Mótmælendurnir krefjast þess að fá nýja stjórnmálamenn. Þegar betur gekk voru flestir þó sáttir við að kjósa hægriflokkinn Nea Demokratia, sem á endanum steypti ríkinu í glötun með því að falsa ríkisfjármálin, og sósíaldemókrataflokkinn Pasok sem byggði upp velferðarkerfi sem getur ekki staðið undir sér og fjölgaði ríkisstarfsmönnum fáránlega mikið. Réttast væri auðvitað að þeir fái að hreinsa upp skítinn samann – en traustið á þessum flokkum er ekki mikið. Það er þá spurning hverjir eiga að taka við – í mótmælunum eru ýmsir hópar, millistéttarfólk, ellilífeyrisþegar, anarkistar, kommúnistar með rauða fána. Þessir hópar geta sameinast um að vera á móti stjórninni, en það er kannski ekki svo ýkja margt sem sameinar þá. Í mótmælunum í dag kom meira að segja til átaka milli anarkistahópa og friðsamra mótmælenda.
En saga Grikklands sýnir að það er ástæða til að óttast öfgar bæði til vinstri og hægri. Og það er eiginlega sama hvaða ríkisstjórn tekur við. Þær þurfa allar að gera það sama: Skera niður, taka á skattheimtunni, ráðast gegn spillingu. Það eru einfaldlega ekki til peningar til að gera annað.