Bandaríkjamenn eyða og spenna í hermál, en Evrópuríki eru treg við að verja peningum með þessum hætti.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, heldur ræðu þar sem hann skammar Evrópubúa fyrir áhugaleysið á hernaðarbrölti.
Hann segir að framtíð Nató sé dökk nema Evrópa leggi meira til þessara mála. Bandalagið muni skiptast í tvennt milli þeirra sem séu til í að heyja stríð og þeirra sem hafi áhuga á að tala og sjá um friðargæslu.
Staðreyndin er sú að það veit enginn lengur til hvers Nató er. Bandalagið stendur í stríðsrekstri í Afganistan og Lýbíu. Evrópusambandið hneigist til að nota diplómatískar leiðir, Bandaríkin eru á valdi þess sem Eisenhower kallaði the military-industrial complex. Samfélagið þar er gegnsýrt af hernaðarhugsun, kerfið gengur út á meira og minna stöðugan stríðsrekstur. Evrópa dregst stundum með, en oftast af litlum áhuga.
Þess vegna er tillaga VG um að Íslendingar gangi úr Nató tímabær, þótt margir kunni að vera ósammála. Það er full ástæða til að íhuga hvaða erindi Ísland eigi í þessum félagsskap, annað er í raun ekki lýðræðislegt.