Stundum er minnið skrítið. Mér finnst ég ekki muna svo ýkja mikið frá því ég var strákur.
Samt þykist ég muna eftir því að hafa verið á Austurvelli og séð Filippus drottningarmann frá Englandi ganga út á svalir Alþingishússins.
Filippus var níræður í gær. Þetta þótti myndarlegur maður sem er af konungsfjölskyldum Grikklands og Danmerkur og var fenginn til að kynbæta bresku konungsfjölskylduna á sínum tíma.
Áðan gúglaði ég þetta og á timarit.is sé ég að Filippus var í heimsókn á Íslandi 30. júní 1964 – og stóð þá einmitt á svölum Alþingishússins með Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands.
Ég var þarna með systur minni, sem hefur verið í kerru, og barnfóstru. Ég var fjögurra ára.
En í minningunni er þetta þannig að upp hafi komið kvittur í mannfjöldanum að kviknað væri í verksmiðju úti á Granda – fólkið hafi svo streymt af Austurvelli og þangað til að horfa á eldinn og eiginlega skilið prinsinn og forsetann eftir eina.
Ég gúglaði líka eldsvoðann.
Hann var 26. ágúst 1964. Reyk lagði yfir miðbæinn. Og ég held ég hafi farið að skoða.
En tengslin við komu Filippusar eru semsagt síðari tíma leikur minnisins.